Handbolti

EM-vefur Vísis í loftið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Merki Evrópumótsins í handbolta 2008.
Merki Evrópumótsins í handbolta 2008.

Aðeins sex dagar eru í Evrópumeistaramótið í handbolta sem fram fer í Noregi og opnar Vísir í dag sérstakan EM-vef þar sem fjallað verður um mótið á ítarlegan máta.

Íslenska landsliðið hefur leik á fimmtudaginn og mætir þá Svíum, frændþjóð okkar og gömlum erkifjendum í handboltanum.

Leikurinn verður gríðarlega mikilvægur og hefur mikið að segja hvað framhald íslenska liðsins á mótinu varðar.

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari hefur sagt að hann stefni á verðlaunasæti enda dugi ekkert minna til að koma liðinu á Ólympíuleikana í Peking í sumar.

Vísir verður með ítarlegan fréttaflutning af gengi íslenska landsliðsins sem og af gangi mála á mótinu öllu.

Þá munu sérfræðingar Vísis láta skoðun sína í ljós á meðan mótinu stendur. Þeir eru Sigurður Valur Sveinsson, fyrrum landsliðshetja, Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka og Patrekur Jóhannesson, leikmaður Stjörnunnar og margreyndur landsliðsmaður.

Vísir mun leggja metnað sinn í að fjalla um EM í handbolta frá öllum mögulegu hliðum og mun flytja fréttir frá mótinu allan sólarhringinn á meðan því stendur.

Það má komast á vefinn með því að smella á EM 2008-hlekkinn efst á íþróttavef Vísis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×