Handbolti

Sverre fluttur á sjúkrahús við komuna til landsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverre Andreas Jakobsson leikur með Gummersbach í Þýskalandi.
Sverre Andreas Jakobsson leikur með Gummersbach í Þýskalandi. Nordic Photos / Bongarts

Landsliðsmaðurinn Sverre Andreas Jakobsson var fluttur á sjúkrahús þegar hann kom til landsins í gær frá Danmörku þar sem íslenska landsliðið lék á æfingamóti í handbolta.

Hann varð mjög veikur í gærmorgun og að sögn Einars Þorvarðarsonar, framkvæmdarstjóra HSÍ, var hann mjög máttfarinn og hélt engu niðri.

Sverre þurfti að vera í hjólastól til að komast leiða sinna bæði á flugvellinum í Danmörku og í Keflavík. Hann var svo beint fluttur upp á sjúkrahús í gærkvöldi þar sem hann fékk vökva í æð.

Hann fékk þó að fara heim að því loknu og gisti í heimahúsi í nótt. Nú síðdegis fór hann aftur á Landspítalann í Fossvogi til að fá vökvanæringu í æð.

Einar sagði að Sverre liði mun betur nú en í gær. Það er þó ekki vitað hvort þetta hafi einhver áhrif á þátttöku hans á EM í handbolta sem hefst eftir tíu daga né heldur hvort veikindin séu smitandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×