Fastir pennar

Eftirminnilegt svar

Ég var við það að gleypa mína eyfirsku tungu þegar ég heyrði félaga Jón Rögnvaldsson vegamálastjóra svara til um ástæður þess í Íslandi í dag í gær að ófremdarsástand ríkti á vegarkaflanum millum Voga og afleggjarans til Grindavíkur.

Svarið: Svo flókin aðgerð ...

Ja svo!

Ég hef keyrt þennan vegarkafla margsinnis á síðustu mánuðum og jafnan furðar mig á þeim misvísandi vegaskiltum og steinstólpum sem þar hefur verið skáskotið á milli reina.

Þvílíkt kaos. Mánuðum saman. Árum saman.

Óvíða eru ökumenn afvegaleiddir jafn rækilega.

Í þessum efnum er brotavilji Vegagerðarinnar einbeittur. Hún ber jú ábyrgðina.

Svo flókin aðgerð, já ...

Það þurfti hvert slysið af öðru ... svo að segja í námunda við banaslys ... til að hreyfa við embættismönnum sem hafa ekki hreyft sig af skrifstofunum af því aðgerðin er svo flókin.

Það er náttúrlega til einskis að spyrja um ábyrgð.

Hitt veit ég, að ég og allur almenningur væri sektaður fyrir viðlíka framferði í umferðinni og vegagerðin kemst upp með ...

-SER.    






×