Fastir pennar

Strax í dag

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar

Fréttir af hækkun á vísitölum í útlöndum í gær varðar okkur nokkuð. Alkul á markaði víða um lönd auðveldar ekki endurskipulagningu á viðskiptum okkar við útlönd sem hafa verið í maski undanfarna daga. Og sér ekki fyrir endann á því ástandi.

Verst eru tíðindin að útflutningsfyrirtæki leiti nú til dótturfyrirtækja erlendis og banka utan landsteinanna til að hýsa gjaldeyristekjur okkar. Kurteisleg áskorun forsætisráðherra til þeirra um miðjan dag í gær var laus við örvæntingu, en hverjum manni má vera ljóst að komi tekjur ekki inn í landið er botninn farinn úr tunnunni.

Það er endanleg niðurstaða í þeirri ömurlegu stöðu sem krónan er komin í. Þá er lítil björg í vaxtalækkun. Gjaldmiðillinn endanlega ónýtur eftir fall um 70% frá áramótum. Peningastefnan hefur beðið endanlegt skipbrot og skiptir þá litlu hvaða álit forsætisráðherrann hefur á forystu Seðlabankans. Í slíkri stöðu er mönnum réttast að sýna þann manndóm að víkja og veita nýjum mönnum tækifæri, gefa almenningi kost á nýju upphafi.

Snemma í þessu hruni var sýnilegt að ráðamenn urðu að hafa óhemju snör handtök. Hér voru sögulegir tímar og í ólgusjó þessa hruns kapítalismans sáust varla handa skil. Það er auðvelt að vera vitur eftirá og sá tími kemur að rakin verða afdrif eigna okkar sem nú eru farnar að stórum hluta. Allt bendir til að íslensk stjórnvöld hafi verið alls óundirbúin eftir að hafa látið öll varnaðarorð sem vind um eyru þjóta um margra missera skeið. Enn er ekki að sjá annað en hik á íslenskum stjórnvöldum: beðið eftir karli úr flugvél, beðið eftir gögnum á pappír, beðið eftir fundi þriggja manna. Á meðan situr þjóðin á biðstofunni og nýr hendurnar. Þrot blasir við.

Slíkt ástand kallar um síðir á pólitískt uppgjör. Það er líka kjörlendi fyrir pólitíska loddara. Og ekki er mikil von til að stjórnmálalíf í landinu rísi undir endurnýjun sem mikil þörf er á eftir ólög síðustu daga. Vítt og breitt um landið eru fyrirtækin á vonarvöl og brátt brestur á önnur bylgja gjaldþrota sem mun gefa þeim fáu sem hafa einhverja sjóði kost á nýjum fjárfestingum í landi sem hratt er horfið í röð láglaunasvæða, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir.

Erlendum fyrirtækjum gefst nú kostur á að eignast íslenskan fyrirtækjarekstur fyrir slikk ef þeir svo kjósa og líta hjá smæð heimamarkaðar. Ef þeir nenna að leggja sig eftir atvinnurekstri hér.

Brátt munum við heyra ákafar óskir um launalækkun hjá starfsfólki, skerðingu á lífeyrisréttindum. Mikilvægt er að þá verði lækkað risið á þeim sem hæst hafa launin og best eru komnir. Þeirra á meðal þingmenn á eftirlaunum og æðstu embættismenn, þeir sem báru ábyrgð á því stórslysi sem hér er orðið.

Það er þrotatími fram undan í landinu, lurkur af manna völdum, og því nauðsynlegt að menn gæti stillingar þegar til skiptanna kemur.

Og þá er brýnt að finna sér næði og ró til að leita nýrra atvinnutækifæra: fjármálarekstur skapaði hér tekjur sem fóru fram úr sjávarafla. Nú er bústólpi á burt. Hvað skal koma í hans stað? Hingað kemur enginn aðvífandi rekstur meðan krónan er okkar gjaldmiðill. Rígheldni í gjaldmiðilinn er því tekin að nálgast alvarlega bilun sem heill stjórnmálaflokkur verður nú að hrista af sér. Raunveruleikinn blasir við, kominn tími á sjálfstæða hugsun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×