Körfubolti

NBA í nótt: Houston vann Denver

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tracy McGrady átti stórleik með Houston í nótt.
Tracy McGrady átti stórleik með Houston í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Houston Rockets minntu á sig í NBA-deildinni í körfubolta í nótt með góðum sigri á Denver Nuggets, 108-96.

Nokkrir leikmanna Houston hafa átt við meiðsli að stríða að undanförnu en liðið sýndi hversu megnugt það getur orðið ef allir eru heilir.

Tracy McGrady átti stórleik og náði þrefaldri tvennu í fjórða skipti á ferlinum og í fyrsta skiptið á þessu tímabili. Hann skoraði 20 stig, tók fjórtán fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Yao Ming átti einnig góðan leik og skoraði 32 stig. Tracy McGrady skoraði 20 stig og Aaron Books var með átján stig en Houston hefur unnið fimm af síðustu sjö leikjum sínum.

Houston náði að halda Denver í aðeins 35 stigum í síðari hálfleik og nýtti alls 55 prósent skota sína utan af velli.

Artest hafði misst af síðustu tveimur leikjum Houston vegna ökklameiðsla og þá var Rafer Alston frá vegna tognunar á lærvöðva. Þá er Brent Barry enn frá en hann hefur nú misst af níu leikjum í röð.

Hjá Denver var Carmelo Anthony með 22 stig og JR Smith sautján. Chauncey Billups skoraði aðeins átta stig í leiknum en liðið hefur nú unnið sextán leiki en tapað fimm síðan hann kom til liðsins.

New Orleans vann Memphis, 91-84. Chris Paul var með átján stig, níu stoðsendingar og fimm stolna bolta. James Posey bætti við fimmtán stigum fyrir New Orleans.

LA Clippers vann Oklahoma, 98-88. Zach Randolph var með 22 stig og þrettán fráköst en þetta var hans fjórða tvöfalda tvenna í röð.

Charlotte vann Chicago, 110-101, í framlengdum leik. DJ Augustin skoraði 29 stig en þetta var fyrsti sigur Charlotte í síðustu átta leikjum liðsins.

LA Lakers vann New York, 116-114. Kobe Bryant var með 28 stig í leiknum en Lakers var fimmtán stigum undir í hálfleik.

Portland vann Sacramento, 109-77. Brandon Roy var með 29 stig þó svo að hann hafi ekkert komið við sögu í fjórða leikhluta. LaMarcus Aldridge var með fimmtán stig og tíu fráköst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×