Handbolti

Margar stórstjörnur fjarverandi á EM í handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ivano Balic er af mörgum talinn besti handknattleiksmaður heims.
Ivano Balic er af mörgum talinn besti handknattleiksmaður heims. Nordic Photos / Bongarts

Í dag eru aðeins tíu dagar þar til EM í handbolta hefst í Noregi. Þó er þegar ljóst að margar af stærstu handboltastjörnum Evrópu verða fjarverandi.

Íslenska landsliðið er að vísu vel sett og allir bestu leikmenn liðsins eru klárir í slaginn. Hið sama verður þó ekki sagt um mörg af sterkustu liðum Evrópu.

Evrópumeistarar Frakka hafa titil að verja en margir leikmenn úr þeirra röðum eiga við meiðsli að stríða. Ísland er með Frakklandi í riðli.

Michael Guigou og Joel Abati verða ekki með en stórskytturnar Nikola Karabatic og Daniel Narcisse hafa þó báðir náð sér af meiðslum og verða með í Noregi. Annað mál er þó hvort að leikformið þeirra sé nægilega gott.

Þá er einnig óvíst hvort að Bertrand Gille verði með en hann meiddist nýlega.

Ísland er einnig með Svíþjóð og Slóvakíu í riðli. Þetta er fyrsta stórmót Svía síðan 2005 og aðeins fjórir leikmenn eru eftir úr Evrópumeistaraliði þeirra frá árinu 2002. Það eru Tomas Svensson, Johan Petersson, Martin Boquist og Marcus Ahlm.

Það er langt síðan að Stefan Lövgren lék með sænska landsliðinu síðast og ekki útlit fyrir að hann verði með í Noregi.

Sænska landsliðið lék tvo æfingaleiki um helgina, gegn Króatíu og Slóveníu. Svíar töpuðu fyrri leiknum, gegn Króatíu, 31-26, en unnu svo Slóvena í gær, 34-31.

Af öðrum stórþjóðum á EM má nefna Dani sem verða án Sören Stryger og Per Leegard á EM. Þá er einnig óvíst hvort að fyrirliðinn Joachim Boldsen verði með en það mun ráðast á því hvort hann verði leikfær fyrir æfingaleiki Dana gegn Þjóðverjum um helgina.

Króatar verða án tveggja sterkustu leikmanna sinna, þeirra Mirza Dzomba og Ivano Balic. Það er reyndar ekki útséð með Balic en útlitið er ekki gott.

Þá er besti leikmaður Tékka, Filip Jicha, afar tæpur fyrir mótið í Noregi.

Einn besti markvörður heims, Þjóðverjinn Henning Fritz, meiddist á fingri í æfingaleik um helgina og mun það ráðast á batanum í vikunni hvort hann verði með í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×