Handbolti

Alfreð hafði betur í stórslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, segir sínum mönnum til í leiknum.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, segir sínum mönnum til í leiknum. Nordic Photos / Bongarts

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel unnu frábæran sjö marka sigur á Hamburg í stórslag þýsku úrvalsdeildarinnar um helgina eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik.

Staðan í hálfleik var 14-12, Hamburg í vil en félagið var í haust talið það eina sem ætti raunhæfa möguleika á að valta Kiel úr sessi sem Þýskalandsmeistari.

Kiel skellti í lás í vörninni í síðari hálfleik og Thierry Omeyer varði gríðarlega vel í markinu. Hamburg skoraði aðeins átta mörk í síðari hálfleik og lokatölur urðu 29-22.

„Við hefðum getað gert betur fyrsta stundarfjórðung leiksins en lentum þá í vandræðum með Johannes Bitter markvörð sem varði vel í markinu. Þar að auki fengum við mörg ódýr mörk á okkur," sagði Alfreð eftir leik.

„Í seinni hálfleik var sóknarleikurinn grimmari og leikmenn hreyfðu sig betur. En þó svo að við sáum nokkra tapaða bolta í leiknum er ljóst að þarna áttust við tvö lið í heimsklassa sem léku handbolta í hæsta gæðaflokki. Ég er stoltur af því hvernig strákarnir mínir stóðu sig í seinni hálfleik."

Þá gerðu Füchse Berlin og Grosswallstadt jafntefli í gær, 32-32. Einar Hólmgeirsson lék með síðarnefnda liðinu en náði ekki að skora. 

Lemgo hefur byrjað feykilega vel í deildinni og er í efsta sætinu með Kiel en bæði lið eru með þrettán stig. Hamburg hefur hins vegar byrjað skelfilega og er í ellefta sæti með sex stig.

Grosswallstadt er í níunda sætinu með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×