Viðskipti innlent

Segir afnám verðbólgumarkmiðs valda búsifjum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson.
Þórarinn G. Pétursson. MYND/Gunnar V. Andrésson

Í kjölfar ummæla Roberts Z. Aliber, hagfræðiprófessors frá Chicago, um að skynsamlegt sé fyrir Seðlabanka Íslands að setja verðbólgumarkmið sitt til hliðar í tvö ár á meðan þjóðin vinni sig út úr fjárhagslegum þrengingum, leitaði Vísir álits sérfræðinga Seðlabankans.

„Í stuttu máli þá er grundvöllur þess að halda lítilli og stöðugri verðbólgu að peningastefnan veiti verðbólguvæntingum trausta kjölfestu," sagði Þórarinn Gunnar Pétursson, aðstoðarframkvæmdastjóri og staðgengill aðalhagfræðings, en svar hans barst með tölvupósti.

Þórarinn sagði seðlabanka um allan heim hafa leitað leiða til að ná þessu markmiði og hefði ýmislegt verið reynt í því sambandi, allt frá því að tengja gjaldmiðla við góðmálma, setja sér reglur um vöxt peningamagns eða festa gengi gjaldmiðilsins við gjaldmiðil lands sem hefur seðlabanka sem veitir þessa kjölfestu.

Trúverðugleikanum varpað fyrir róða

Á síðustu árum sagði Þórarinn æ fleiri ríki hafa farið þá leið að setja seðlabanka sínum tölulegt verðbólgumarkmið til að ná þessum stöðugleika.

Þá ritaði Þórarinn: „Með afnámi verðbólgumarkmiðsins yrði trúverðugleiki baráttunnar við verðbólgu hér á landi endanlega fyrir bý og háar verðbólguvæntingar myndu festast í sessi. Afleiðing þess yrði að við myndum missa algerlega tökin á verðbólgunni sem gerði það enn erfiðara og kostnaðarsamara að ná henni niður síðar. Svigrúm peningastefnunnar til að mýkja áhrif mögulegra erfiðleika í efnahagslífinu síðar meir yrði því minna sem verðbólgan yrði hærri og sveiflukenndari."

Að sögn Þórarins er það mikill misskilningur að afnám verðbólgumarkmiðs sé til þess fallið að lækka vexti. Nafnvextir séu því hærri sem verðbólga er meiri og nefnir Þórarinn millibankavexti í Zimbabve máli sínu til stuðnings en þeir séu nú rúmlega 4.000 prósent. Afnám verðbólgumarkmiðsins sé því til þess fallið að hækka langtímanafnvexti í stað þess að lækka þá.

Þórarinn telur talsmenn afnáms verðbólgumarkmiðs ekki gera sér grein fyrir eðli skuldbindinga innlendra heimila og fyrirtækja en stór hluti þeirra sé verðtryggður eða bundinn í erlendum gjaldmiðlum. Klykkir hann út með því að „afnám verðbólgumarkmiðsins, og gengislækkun sem óhjákvæmilega myndi fylgja í kjölfarið, myndu því valda innlendum heimilum og fyrirtækjum verulegum búsifjum, til viðbótar því óhagræði og kostnaði sem há og sveiflukennd verðbólga myndi valda. Þessi kostnaður sést þegar hér á landi í vaxandi deilum á vinnumarkaði, átökum milli tekjuhópa og almennum mótmælum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×