Viðskipti erlent

Lánin hjá Glitni í Noregi voru endurgreidd í mars og sumar

MYND/Heiða

Samkvæmt upplýsingum frá fógetaréttinum í Sunnmöre í Noregi voru tvö af lánunum sem Glitnir hafði milligöngu um endurgreidd til bankans í sumar. Þriðja lánið var endurgreitt í mars.

Eins og fram hefur komið í fréttum í morgun hafa Norðmenn hafa kært Glitni fyrir að stinga undan sjö milljörðum íslenskra króna eftir að lán til þriggja aðila hafði verið greitt til baka og runnið í sjóði bankans, en ekki til upphaflegs lánardrottins.

Málið komst í hámæli eftir að lánveitandinn, Eksportfinans, kannað um miðjan þennan mánuð hver staðan væri á lánunum. Glitnir hafði fram að þeim tíma greitt afborganir og vexti eins og lánin væru enn til staðar.

Vefsíðan E24.no ræðir við forstöðumenn þeirra félaga sem tóku lánin. Allir segjast þeir koma af fjöllum í málinu enda töldu þeir að þessi lánamál þeirra hefðu verið afgreidd fyrir löngu.

„Við vissum ekki að við blönduðumst inn í þetta mál," segir Per Arne Haram forstjóri hjá Uksnöy og Co. „Við höfum allan tíman átt samskipti við Glitni og vorum búnir að gera upp lánið til okkar."

Tekið skal fram að um er að ræða Glitni hf. hér á Íslandi en ekki Glitni Bank í Noregi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×