Fastir pennar

Rök fyrir utanþingsstjórn

Þorvaldur Gylfason skrifar

Kreppan nú er þríþætt og snýst um fjármál, gjaldeyrismál og stjórnmál. Fjármálakreppan skall á, þegar þrír stærstu bankar landsins hrundu eins og spilaborg.

Gjaldeyriskreppan fylgdi í kjölfarið, þar eð erlendir bankar lokuðu að mestu fyrir viðskipti við íslenzku bankana. Seðlabankinn gat ekki komið erlendum gjaldeyri í gagnið nema með herkjum og hóf því að skammta gjaldeyri. Útflytjendur hættu að færa erlendan gjaldeyri heim til Íslands. Stjórnmálakreppan var undirrót hinna tveggja, þótt margir kæmu ekki auga á hana fyrr en um seinan. Fólkið í landinu fann smjörþefinn í Reykjavík, þegar borgarfulltrúar helmingaskiptaflokkanna reyndu fyrir nokkru bak við luktar dyr að koma orkulindum borgarbúa í hendur útrásarvíkinga líkt og fiskimiðunum fyrr. Málið snerist svo í höndum þeirra, að úr varð glundroði í borgarstjórninni. Nú stefnir í svipað ástand á landsvísu, nema gripið verði í taumana. Forsagan er lengri en margir virðast halda.





Tvær reginskyssur

Ríkisstjórn helmingaskiptaflokkanna afhenti útvegsmönnum fiskimiðin á silfurfati 1984. Hún bætti gráu ofan á svart með því að einkavæða bankana eftir forskrift fiskveiðistjórnarinnar án þess að skeyta um hag réttra eigenda, fólksins í landinu. Bankarnir voru seldir á lágu verði í hendur vel tengdra manna, sem keyrðu þá í kaf á kostnað almennings. Samband flokkanna og bankanna var nánara en svo, að vænta mætti nokkurs skilvirks aðhalds eða eftirlits af hálfu ríkisins.

Rangsleitnin í fiskveiðistjórninni og einkavæðing bankanna eftir sömu forskrift afhjúpa ábyrgðarleysi og getuleysi stjórnmálastéttarinnar, einkum gömlu helmingaskiptaflokkanna. Þeir þurfa því að víkja líkt og kommúnistaflokkar Austur-Evrópu gerðu árin eftir 1990. Að því marki eru tvær leiðir færar. Önnur er að veita þessum flokkum rækilega ráðningu í næstu þingkosningum eða jafnvel þurrka þá út líkt og gerðist á Ítalíu fyrir nokkrum árum af áþekku tilefni. Fljótlegra væri að fá þá til að draga sig í hlé. Til þess þyrfti ríkisstjórnin sem fyrst að biðjast lausnar, svo að forseti Íslands geti skipað utanþingsstjórn til að skipuleggja og halda utan um hreingerningu og endurreisn efnahagslífsins og semja með hraði um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt, að hann er ófær um að sinna því verki. Hinir flokkarnir hafa litlu meiri burði. Af þessu ástandi helgast þörfin nú fyrir utanþingsstjórn.



Verkefni nýrrar utanþingsstjórnar

Íslendingar hafa einu sinni búið við utanþingsstjórn, í miðju stríði 1942-44. Hún var skipuð vegna þess, að þingflokkarnir komu sér ekki saman um myndun meirihlutastjórnar. Ríkisstjóri Íslands þurfti því að taka af skarið og skipaði stjórn undir forsæti dr. Björns Þórðarsonar, héraðsdómara í Reykjavík. Björn hafði boðið sig fram til þings 1927 fyrir Framsóknarflokkinn, en ekki náð kjöri. Með honum í stjórninni sátu við fimmta mann Björn Ólafsson stórkaupmaður, sem var tengdur Sjálfstæðisflokknum og síðar þingmaður hans 1948-59, og Vilhjálmur Þór, forstjóri SÍS og síðar seðlabankastjóri, nátengdur Framsóknarflokknum. Utanþingsstjórnin var í daglegu tali kölluð "Coca Cola"-stjórnin, þar eð eigendur verksmiðjunnar voru Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór, holdgervingar helmingaskiptanna.

Utanþingsstjórn nú yrði líkt og fyrr litin hornauga á Alþingi. Sex ráðuneyti myndu duga: forsætis, utanríkis, fjármála, heilbrigðis- og menntamála, atvinnuvega (byggða, iðnaðar, landbúnaðar, sjávarútvegs, viðskipta), og innanríkis (dóms, kirkju, félagsmála, samgöngu, umhverfis).

Höfuðverkefni stjórnarinnar yrðu að beita framkvæmdarvaldinu án atbeina Alþingis til að (a) koma bankamálunum og samskiptum við útlönd í eðlilegt horf, (b) fá erlenda menn til að taka út aðdraganda og eftirleik bankahrunsins, (c) skipa hæfa embættismenn í stað þeirra, sem sízt hafa dugað síðustu ár, (d) semja um inngöngu Íslands í ESB og upptöku evrunnar og (e) leggja fram drög að nýrri stjórnarskrá, þar sem þingmönnum væri fækkað úr 63 í 49, 35 eða 21 og forseta Íslands væri veitt heimild til að vísa til þjóðaratkvæðis ekki aðeins lagafrumvörpum, sem þingið samþykkir líkt og fjölmiðlafrumvarpið illræmda 2004, heldur einnig frumvörpum, sem þingið hafnar. Með því móti væri girt fyrir getu Alþingis til að halda Íslandi utan ESB og til að taka sér óhófleg eftirlaun gegn vilja fólksins í landinu. Eftir allt, sem á undan er gengið, þyrfti trausti rúið Alþingi að taka sér tak til að hafa roð við slíkri stjórn í hugum og hjörtum kjósenda. Þess vegna munu flokkarnir á Alþingi ekki ótilneyddir veita kost á myndun utanþingsstjórnar. Ef svo er, verður uppreisn almennings gegn flokkunum í næstu alþingiskosningum ekki umflúin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×