Viðskipti innlent

Sigurður ætti að líta í eigin barm með heimildarlaus viðskipti

Finnur Ingólfsson segir það af og frá að eitthvað hafi verið óeðlilegt við viðskiptahætti í kringum viðskilnað hans við Icelandair.
Finnur Ingólfsson segir það af og frá að eitthvað hafi verið óeðlilegt við viðskiptahætti í kringum viðskilnað hans við Icelandair.

Athafnamaðurinn Finnur Ingólfsson vísar ásökunum Sigurður G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns í Morgunblaðinu í dag á bug.

Í greininni sakar Sigurður Finn um að hafa hagnast verulega á kostnað félags í eigu Samvinnutrygginga í heimildarlausum viðskiptum þeirra á milli við viðskilnað Finns og Icelandair í ágúst í fyrra. Sigurður bendir á að Finnur hafi stýrt eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga í umboðsleysi ásamt öðrum og spyr hvort þessir aðilar hafi ekki verið andvaka yfir páskana vegna rýrnunar eiginfjár eignarhaldsfélagsins meðal annars vegna viðskipta við félag Finns.

"Ég hef ekki lesið greinina og læt mér í léttu rúmi liggja hvað Sigurður skrifar," segir Finnur í samtali við Vísi.

Finnur segir það af of frá að eitthvað hafi verið athugavert við viðskilnað sinn við Icelandair. Aðspurður um heimildarleysi fyrir viðskiptunum sem Sigurður talar um í grein sinni segir Finnur að Sigurður G. ætti að líta í eigin barm þegar kæmi að heimildarlausum viðskiptum. "Ég nefni sem dæmi SPH," segir Finnur.

Sigurður segir í grein sinni, sem ber fyrirsögnina "Eru samvinnumenn aðrir en Finnur andvaka?", að tveir af fyrrum ráðherrum Framsóknarflokksins Valgerður Sverrisdóttur og áðurnefndur Finnur hafi ásamt öðrum flutt eignir og skuldir Samvinnutrygginga yfir í hlutafélag sem kallað er Gift fjárfestingafélag ehf.

Sigurður segir að Gift hafi átt tæpan þriðjungshlut í Icelandair í gegnum félagið Langflug. Láðst hafi þó að geta þess á aðalfundi Samvinnutrygginga að meðeigandi í Langflugi væri FS7 sem er félag í eigu Finns Ingólfssonar. "Finnur losaði félag sitt úr þessu samkrulli við Gift með ævintýralegum hætti í lok ágúst og byrjun september 2007. Var gengi Icelandair í viðskiptum FS7 og Giftar 31,5 kr. á hlut. Þetta virðist hæsta skráða verð á hlutum í Icelandair. Gengi þess er nú 24,30 kr. á hlut," segir Sigurður í grein sinni. Hann endar hana á þeim orðum að vonandi hafi hinir umboðslausu framsóknar- og samvinnumenn ekki verið andvaka yfir páskana vegna augljósrar rýrnunar eiginfjár Giftar meðal annars vegna heimildarlausra viðskipta við FS7.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×