Handbolti

Gætum mætt með B-liðið á EM

AFP

Margir öfunda danska landsliðið í handbolta fyrir þá miklu breidd sem liðið hefur yfir að ráða. Þjálfarinn Ulrik Wilbek tekur dýpra í árina og segist vel hafa geta mætt með B-lið Dana til keppni á EM.

"Ég er viss um að B-liðið okkar myndi ná minnsta kosti þriðja sæti í riðlinum okkar ef við sendum það til keppni í stað A-liðsins," sagði Wilbek drjúgur í samtali við Ekstrabladet í dag, en mótherjar Dana í B-riðlinum eru Norðmenn, Rússar og Svartfellingar.

"Ég held að þetta lið gæti líka unnið lið eins og Hvíta-Rússland og kannski Slóvakíu. Við eigum mikið af góðum handboltamönnum í Danmörku," sagði Wilbek.

Aðstoðarmaður hans Peter Bredsdorff-Larsen er sammála og segir Dani vera með eina mestu breiddina á Evrópumótinu.

"Ætli það sé ekki einna helst Þjóðverjar og Svíar sem hafa sömu breidd og við - og svo kannski Frakkar og Spánverjar," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×