Handbolti

GOG hefur líka áhuga á Rúnari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar við verðlaunaafhendinguna í dag.
Rúnar við verðlaunaafhendinguna í dag. Mynd/E. Stefán

Danska úrvalsdeildarfélagið GOG Svendborg hefur áhuga að fá Rúnar Kárason í sínar raðir, rétt eins og FC Kaupmannahöfn og Füchse Berlin.

„GOG hefur sýnt mér áhuga og vilja fá mig til að vera með Ásgeiri (Erni Hallgrímssyni, leikmanni GOG)," sagði Rúnar í samtali við Vísi í dag. Annað stórlið í danska handboltanum, FC Kaupmannahöfn, hefur einnig sýnt Rúnari áhuga sem og þýska úrvalsdeildarliðið Füchse Berlin.

„Mér finnst allir þrír kostir mjög spennandi. Þetta eru félög með háleit markmið og það er mikil hefð í báðum dönsku klúbbunum. Á móti kemur að Berlin er með mjög athyglisverða stefnu fyrir næstu fimm árum og Dagur er mjög metnaðarfullur þjálfari."

„Ég var einmitt á fundi með Degi í morgun og mér finnst framtíðaráætlanir hans og félagsins mjög spennandi. Þeir ætla sér að koma liðinu úr miðri deild á toppinn sem samræmist mínum markmiðum sem ég hef sem leikmaður."

Dagur Sigurðsson var í vikunni ráðinn þjálfari Füchse Berlin sem hefur þegar gert Rúnari tilboð. Rúnar er hins vegar enn að bíða eftir tilboðum dönsku félaganna en á von á þeim fljótlega.

„Það er alveg ljóst að ég mun fara út næsta sumar. Ég er samningsbundinn Fram til 2011 en ég hef þjónað félaginu vel og á ekki von á að það verði vandamál. Fram mun vitanlega fá eitthvað fyrir sinn snúð líka."

„En ég á erfitt með að ákveða mig eins og er. Ég mun klára mín stúdentspróf í næstu viku en eftir það mun ég vonandi taka ákvörðun."

Rúnar var í dag valinn í úrvalslið N1-deildar karla fyrir fyrstu sjö umferðir mótsins. Fram er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig, þremur stigum á eftir toppliði Vals en þessi tvö lið mætast einmitt í Safamýrinni á morgun.

„Þetta er búið að vera fínt tímabil hjá okkur. Við höfum þó átt góða og slæma leiki í bland en ef við getum rétt okkur af erum við í góðum málum. Ef við vinnum Val á morgun verðum við í góðri stöðu."

„Þessi deild hefur spilast þannig að allir eru að stela stig af öllum. Það hefur líka verið frábær stemning á leikjunum og umgjörðin mjög góð. Það er greinilegt að gott gengi landsliðsins á Ólympíuleikunum hafði góð áhrif á deildina."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×