Viðskipti innlent

Stjórnarformaður SPRON seldi part af hlut sínum fyrir markaðsskráningu

Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON, segist hafa selt hluta af hlut sínum í félaginu áður en það fór á markað. Þetta kom fram í hádegisviðtali Markaðarins í dag.

Stjórn SPRON hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að birta ekki upplýsingar um sölu stjórnarmanna á hlutum í félaginu áður en það fór á markað. Hafa samtök gagnrýnt svör fyrirtækisins vegna þess. Þar hefur komið fram að SPRON hafi ekki verið heimilt að birta opinberlega upplýsingar um viðskipti stjórnarmanna „þar sem það var talið geta valdið ruglingi við hlutabréfamarkaðinn."

Hildur sagði í viðtalinu að settar hefðu verið reglur um stofnfjármakað sem Fjármálaeftirlitið hefði blessað og fyrirtækið hefði farið í einu og öllu eftir því. Það væri regluvörður innan fyrirtækisins sem samþykkti öll viðskipti innherjaviðskipti hjá SPRON.

Aðspurð um sölu stjórnarmanna á hlutum í SPRON fyrir skráningu á markað sagði Hildur að hún gæti ekki upplýst fyrir aðra en hún hefði sjálf selt. Hún hefði verið að kaupa og selja í félaginu og fyndist það í lagi því hún hefði farið eftir bestu samvisku og bestu reglum.

Aðspurð hvort hún hefði ekki haft trú á fyrirtækinu sagði Hildur að hún hefði hana. Aðspurð hvers vegna hún hefði viljað eiga hlut áfram sagði Hildur: „Kannski vildi ég eiga minni hlut í því af því að þessi hlutur hafði vaxið mikið. Gengið hafði hækkað mikið."

Hildur var einnig spurð hvort ímynd SPRON hefði ekki beðið hnekki við þessa umræðu og svaraði hún því til að hún héldi að svo væri ekki. Markaðsaðstæður hefðu verið erfiðar þegar SPRON fór á markað en fyrirtækið hefði allt eins getað hækkað.

Aðspurð um orðróm þess efnis að hún væri á leið úr sæti stjórnarformanns sagðist Hildur ekki hafa heyrt hann en að hún myndi bjóða sig fram aftur á aðalfundi 27. febrúar. Það væri svo hluthafa að taka ákvörðun um það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×