Körfubolti

Megum ekki leyfa þeim að hampa titlinum í Róm

Óskar Ófeigur Jónsson í Róm skrifar
Jón Arnór Stefánsson körfuboltakappi.
Jón Arnór Stefánsson körfuboltakappi.
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Lottomatica Roma taka í kvöld á móti Montepaschi Siena í fjórða leik liðanna um ítalska meistaratitilinn.

Siena-liðið er búið að vinna þrjár fyrstu leiki einvígisins og getur tryggt sér titilinn með sigri í kvöld en liðið er búið að vinna alla níu leiki sína í úrslitakeppninni til þessa.

Jón Arnór var jákvæður þegar blaðamaður Fréttablaðsins hitti á hann fyrir æfingu í æfingahúsi Lottomatica í gær. "Ég hef nú ekki rætt við strákana en ég held bara að við séum nokkuð stemmdir. Við getum náttúrulega ekki farið í gegnum seríuna án þess að vinna leik. Við megum ekki leyfa þeim að hampa titlinum í Róm allavega en ég veit að það verðu mjög erfitt að vinna fjóra leiki í röð. Við verðum bara að vera jákvæðir og trúa á þetta því það er ekkert annað hægt í þessarri stöðu," sagði Jón Arnór sem fékk nokkuð góða dóma í ítölsku blöðunum fyrir frammistöðu sína í þriðja leiknum á sunnudagskvöldið.

Jón Arnór skoraði 8 stig og hitti úr 3 af 6 skotum sínum í leiknum en hann hafði skorað samtals 8 stig og hitt úr 2 af 11 skotum sínum í fyrsti tveimur leikjum sínum. Það er vonandi að hann haldi uppteknum hætti í kvöld en það er hinsvegar alltaf hægt að treysta á hann í vörninni þar sem hann fer fyrir sínum mönnum í grimmd og vinnusemi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×