Handbolti

Tvísýnt með Sverre og Garcia

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverre Andreas Jakobsson, leikmaður Gummersbach og íslenska landsliðsins.
Sverre Andreas Jakobsson, leikmaður Gummersbach og íslenska landsliðsins. Nordic Photos / Bongarts

Einar Þorvarðarson segir það enn óljóst hvort að Sverre Andreas Jakobsson og Jaliesky Garcia verði orðnir leikfærir þegar íslenska landsliðið mætir Tékkum á sunnudag.

Báðir hafa verið veikir undanfarna daga en Sverre veiktist illa í Danmörku um helgina og dvaldist á sjúkrahúsi í upphafi vikunnar þar sem hann varð fyrir gríðarlega miklu vökvatapi.

Garcia hefur legið í flensu síðustu tvo daga en er þó allur að koma til, að sögn Einars.

„Það er í raun ekki farið að skoða það hvort þeir gætu spilað með gegn Tékkum. Það kemur vonandi betur í ljós á morgun," sagði Einar.

Þeir Arnór Atlason, Alexander Petersson og Bjarni Fritzson hafa allir átt við smávægileg meiðsli að stríða en það er búist við því að þeir muni að einhverju leyti geta tekið þátt í leikjunum gegn Tékkum á sunnudag og mánudag.

Einar sagði að Alexander myndi æfa með íslenska landsliðinu á morgun. Arnór fer í læknisskoðun á morgun og verður þá hægt að taka frekari ákvörðun um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×