Fastir pennar

Brennum borgina

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar

Enn herðist hnúturinn um háls skipulagsyfirvalda í Reykjavík. Þau eru bandingi á palli með snöru um hálsinn sem játar kjökrandi að hann hafi ekkert gert og geti ekkert gert. Fjárplógsmenn sem sönkuðu að sér gömlum íbúðarhúsum frá fyrri hluta tuttugustu aldar, þess fullvissir að undanlátssemi skipulagsyfirvalda væri söm við sig, húsin mætti rífa og á þröngum lóðunum byggja út fyrir lóðarmörk, sitja nú uppi með eignir sem þeir koma ekki í lóg. Spennan er farin úr ofneyslunni, fjármagnskreppan lamar stórar áætlanir um nýbyggingar í hverfunum frá Kvos að Rauðará. Eftir standa yfirgefin og skemmd hús sem eru komin á gátskrá slökkviliðsins sem hefur nú tekið á sig nýtt hlutverk sem Minjavernd Reykjavíkur reyndist ekki hafa dug til að annast.

Nú rætist sú spá að fyrirhyggjuleysi skipulagsyfirvalda komi öllum hlutaðeigandi í koll: miðborgin er líkust brunahverfum Belfast með sóðaskikum sem minna mest á Lower East Side í New York: Hrein torg, fögur borg. Snyrtipinnar sem fyrir fáum misserum sögðu það sitt fyrsta verk að taka til á götum og torgum halda sig til hlés. Og í þessu ástandi grípa eigendur húsanna sem allir ganga undir skammstöfunum og eru andlitslausir til gamalla bragða úr borgarsögu Evrópu: þeir búa til eldsmat í þröngum hverfum. Vörumerki þeirra er eyðilegging og ekki er skeytt um nágrenni.

Byggingarfulltrúinn og slökkvistjórinn hafa að vísu ráð, reglugerðir, lagaskyldu til að bregðast við, en bera við skorti á mannskap og klögunarrétti eigenda sem hafa sér að hlífiskildi stórgallaðar deiliskipulagsdruslur. Hvers verður ábyrgðin ef eldar kvikna í sæmilegum vindi að norðan? Embættismanna sem sátu of lengi aðgerðalausir, stjórnmálamannanna sem eru í felum eða hústökufyrirtækjanna sem skilja húsin eftir opin fyrir vágestum og vindum?

Hér hefur ekki enn sprottið upp hreyfing hústökufólks sem víða í stærri borgum og bæjum vestanhafs og austan settist að í húseignum sem svona var komið fyrir. Hér náði hún ekki lengra en þegar hópur fólks tók sig til og málaði Bernhöfts­torfuna. Hennar örlög réðust ekki fyrr en kveikt hafði verið í henni. Hvað þarf til nú? Á Laugavegi, Hverfisgötu, Bergstaðastræti og Frakkastíg eru hús sem þarf að loka áður en ráðið er hver framtíð þeirra verður. Þurfa borgarar í Reykjavík að ganga fram með tæki og tól og vinna verkið fyrir eigendur og embættismenn?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipulagsfræðingur hefur bent á fyrirmyndir að heilfriðuðum hverfum beggja vegna Atlantshafsins. Hann líkir ástandinu hér við þann tíma í austan­tjaldslöndum þegar eldri borgarhlutar voru eyðilagðir eftir heimsstyrjöldina og byggðir upp að nýju af makalausu smekkleysi, telur okkar stöðu reyndar verri. Það eru þokkaleg eftirmæli fyrir skipulagsstjórn stjórnmálaflokkanna í Reykjavík á liðnum áratugum. Þarf að senda nefnd austur fyrir járntjald í smá kennslu?

Það er krafa borgarbúa að þeir einstaklingar sem kosnir voru til ábyrgðar eða ráðnir til vinnu taki á þessu máli - saman - allir - þegar í stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×