Viðskipti innlent

Síminn verður að selja almenningi þriðjung

Síminn kemst ekki undan því að selja almenningi þrjátíu prósenta hlut í fyrirtækinu, segir Jón Sveinsson, fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar, það sé hins vegar undir fjármálaráðuneytinu komið hvort það heimili Símanum að fresta sölunni.

Fram kom í Markaðnum í vikunni að eigendur Símans íhuga að fresta því að bjóða almenningi að kaupa þrjátíu prósent af heildarhlutafé félagsins eins og því ber en það átti að gerast nú fyrir árslok. Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, sagði að félagið myndi hugsanlega fara fram á undanþágu yrðu aðstæður á markaði óheppilegar.

Jón Sveinsson, fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ákvæðið um sölu á hlutafé til almennings hefði verið eitt af stóru atriðunum í samningnum við núverandi eigendur. Hann kvaðst ekki geta sagt til um hvort þetta ákvæði hefði verið metið til verðlækkunar en sagði þetta þó vissulega ákveðna kvöð sem lögð er á kaupandinn og hann skyldugur til að uppfylla. Geri hann það ekki verði forsendur samningsins brostnar.

Hins vegar geti Síminn vel sótt um undanþágu í stuttan tíma til að fresta þessari sölu og það sé fjármálaráðherra og ráðuneytis hans að taka afstöðu til þess. Slíkar undanþágur hafi verið veittar í samningum ráðuneytis til fyrirtækja, þó ekki í einkavæðingartilvikum.

Ríkið seldi símann árið 2005 og félag í eigu Exista og Kaupþings keyptu það á 66,7 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×