Handbolti

Flensburg á sigurbraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Hólmgeirsson, leikmaður Flensburg.
Einar Hólmgeirsson, leikmaður Flensburg. Mynd/Vilhelm

Flensburg er nú í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir sigur á Grosswallstad í gærkvöldi, 35-28.

Einar Hólmgeirsson skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg en Alexander Petersson gat ekki leikið með liðinu vegna meiðsla.

Flensburg og Nordhorn eru í 2.-3. sæti með 23 stig eftur fjórtán leiki, einu stigi á eftir Kiel sem hefur leikið jafn marga leiki.

Hamburg er í fjórða sæti með 22 stig en á leik til góða. Þessi lið eru í nokkrum sérflokki á toppi deildarinnar en Rhein-Neckar Löwen, Gummersbach og Lemgo koma þar á eftir.

Í þýsku 1. deildinni um helgina gerði Empor Rostock jafntefli við Aurich á útivelli. Elías Már Halldórsson skoraði þrjú mörk fyrir fyrrnefnda liðið.

Þá var Heiðmar Felixson markahæstur í liði Hannover-Burgdorf sem vann góðan útisigur á Achim/Baden í sömu deild, 35-31. Hann skoraði níu mörk í leiknum.

Hannover er í fimmta sæti deildarinnar en Rostock í því níunda.

Þá lék GOG sinn síðasta leik í D-riðli Meistaradeildarinnar í gær en liðið vann þá Bregenz frá Austurríki, 33-29. Leikurinn var þó þýðingarlaus þar sem GOG var búið að tryggja sér annað sætið í riðlinum og átti ekki kost á því að slá við San Antonio frá Spáni í efsta sæti riðilsins.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði fimm mörk í leiknum og Snorri Steinn Guðjónsson fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×