Handbolti

Flensburg tapaði óvænt á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marcin Lijewski skoraði sex mörk fyrir Flensburg í kvöld.
Marcin Lijewski skoraði sex mörk fyrir Flensburg í kvöld. Nordic Photos / Bongarts

Þýska liðið Flensburg tapaði afar óvænt á heimavelli í kvöld fyrir pólska liðinu Lublin, 33-32, í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Þetta er annar leikurinn sem liðið tapar í keppninni í haust og orðið tvísýnt um að liðið komist áfram í sextán-liða úrslit.

Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Flensburg í leiknum en Einar Hólmgeirsson lék ekki með vegna meiðsla.

Kent-Harry Andersson, þjálfari Flensburg, var ómyrkur í máli eftir leikinn.  „Ég get ekkert útskýrt hvað gerðist. Við ættum að skammast okkar, enginn í okkar liði stóð sig vel. Nú höfum við gert okkur óþarflega erfitt fyrir og þurfum nauðsynlega að vinna í Póllandi.“

Marcin Lijewski tók í svipaðan streng. „Enginn okkar stóð sig vel. Við vanmátum Lubin og okkur var refsað fyrir það.“ 

Ciudad Real, lið Ólafs Stefánssonar, leikur einnig í riðlinum og er með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Það er ljóst að mikil spenna verður um hvaða lið nær öðru sætinu. Noregsmeistarar Drammen töpuðu fyrir Flensburg um helgina á heimavelli en unnu Lubin á útivelli.

Lubin hafði einnig tapað fyrir Ciudad Real með fimmtán marka mun á útivelli í riðlinum.

Þá vann Kiel góðan sigur á Constanta á útivelli í sömu keppni í kvöld, 29-25. Kiel er á toppi B-riðils með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×