Handbolti

Útisigrar hjá Haukum og Stjörnunni

Elvar Geir Magnússon skrifar

Keppni í N1-deildinni í handbolta karla þetta tímabilið hófst í kvöld með tveimur leikjum. Íslandsmeistarar Vals biðu ósigur á heimavelli sínum gegn Haukum úr Hafnarfirði. Þá vann Stjarnan nauman sigur á HK.

Haukar unnu 23-20 í Vodafone-höllinni. Haukar skoruðu fyrsta mark leiksins en Valsmenn næstu þrjú. Þá lokuðu Haukar vörn sinni og skoruðu sex mörk í röð. Valsmenn bitu frá sér og jafnt og þétt komust meira inní leikinn og jöfnuðu leikinn síðan 10-10 en Haukar skoruðu síðustu þrjú mörkin í fyrri hálfleiknum, 10-13 í hálfleik.

Lítið gekk í byrjun seinni hálfleiks hjá Haukum og fljótlega var staðan orðin 15-15. Bæði lið spiluðu ágæta vörn og jafnt var á öllum tölum þangað til að Haukar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins.

Andri Stefán og Halldór Ingólfsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Hauka.

Stjarnan vann HK 26-25 á útivelli en Garðbæingar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik. Markahæstur þeirra var Ólafur Víðir Ólafsson, fyrrum leikmaður HK, en hann skoraði sex mörk.

Gestirnir voru betri í fyrri hálfleik og framan af þeim seinni. HK náði að jafna 22-22 en svo skoraði Stjarnan þrjú mörk í röð. Heimamenn svöruðu með tveimur mörkum en lengra komust þeir ekki og Stjarnan vann.

Úrslit kvöldsins:

HK - Stjarnan 25-26

Valur - Haukar 20-23

Leikir á laugardag:

16:00 Afturelding - Akureyri

17:00 ÍBV - Fram




Fleiri fréttir

Sjá meira


×