Handbolti

Lazlo Nagy í nærmynd

Nordic Photos/Getty Images
Þrátt fyrir að hin rúmlega tveggja metra háa ungverska vinstrihandarskytta hafi unnið bæði Meistaradeild Evrópu, Evrópukeppni félagsliða og tvo spænska meistaratitla á sínum sjö tímabilum hjá hinum geysisterku Barcelona-mönnum, hefur árangurinn með landsliðinu staðið aðeins á sér.

Oft hefur stórskyttan Nagy sýnt hvað í honum býr en svo hafa sést leikir með ungverska liðinu þar sem hann hefur nánast verið ósýnilegur á vellinum. Samkvæmt ungverskum handboltaspegúlöntum er það nú liðin tíð; Nagy er orðinn nógu mótaður og þroskaður leikmaður til að bera landsliðið á herðum sér.

Þrátt fyrir að hafa afskaplega ungur farið að leika með ungverska A-landsliðinu náði Nagy að vinna bæði gullverðlaun og svo bronsverðlaun á Evrópumóti unglingalandsliða og hann var bara 15 ára þegar hann lék fyrst með aðalliði Pick Szeged í heimalandinu. Hæfileikar hans þóttu líka það áberandi að 19 ára skrifaði hann undir samning sinn við Barcelona.

Fyrir utan óskaplegan skotkraft hefur Nagy með tíð og tíma farið að haga leik sínum skynsamlegar og þróað með sér næmt auga fyrir línuspili. Enn þykir hann ekki nógu lunkinn í að leika inn í hornið og svo þykir hann stundum hægja á liðinu í hraðaupphlaupum.

Staða: Hægri skytta

Fæddur: 3. mars 1981 í Szeged í Ungverjalandi

Félagslið: FC Barcelona



Fleiri fréttir

Sjá meira


×