Handbolti

Guðjón Valur skaut Gummersbach í fjórðungsúrslit

Guðjón Valur átti ótrúlega endurkomu í lið Gummersbach í gær.
Guðjón Valur átti ótrúlega endurkomu í lið Gummersbach í gær. Nordic Photos / Bongarts

Guðjón Valur Sigurðsson átti óvænta endurkomu í lið Gummersbach eftir að hafa verið frá vegna meiðsla undanfarnar vikur. Endurkoma hans skipti sköpum fyrir liðið.

Gummersbach vann þriggja marka sigur á Göppingen, 33-30, í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í gær.

Í umfjöllun um leikinn á handball-welt.de segir að handrit leiksins hefði þess vegna getað verið skrifað af Guðjóni Val sjálfum. Hann kom inn á um miðbik seinni hálfleiks og var lykilmaður í leik Gummersbach síðustu mínúturnar.

Þegar fjórar mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 30-30. Göppingen skoraði ekkert á lokamínútum leiksins en þeir Róbert Gunnarsson og Guðjón Valur sáu um að Gummersbach ynni leikinn og þar með sæti í fjórðungsúrslitum bikarkeppninnar.

Guðjón Valur skoraði fimm mörk í leiknum og Róbert Gunnarsson þrjú. Sverre Andreas Jakobsson lék í vörn liðsins.

Jaliesky Garcia lék vel fyrir Göppingen og skoraði sjö mörk í leiknum, öll utan af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×