Viðskipti erlent

Einkavæðingin heldur innreið sína í Færeyjar

Janus segir Føroya banka vel búinn undir það breytingarferli sem fram undan er. Hann segir Íslendinga munu heyra mun meira frá Færeyingum á næstu árum.
Janus segir Føroya banka vel búinn undir það breytingarferli sem fram undan er. Hann segir Íslendinga munu heyra mun meira frá Færeyingum á næstu árum.

Færeyingar stíga nú fyrsta skrefið í einkavæðingarátt með sölu Føroya banka. Bankinn, sem er einn stærsti banki Færeyja, var stofnaður árið 1906. Árið 1992 settu dönsk og færeysk yfirvöld á fót sjóðinn Fíggingargrunnurin frá 1992 í kjölfar fjárhagskreppu sem reið yfir landið.

Sjóðurinn yfirtók Sjóvinnu­bankann og meirihluta Føroya Banka og sameinaði undir nafni þess síðar­nefnda. Sex árum síðar afhentu dönsk yfir­völd færeysku landsstjórninni full yfirráð yfir sjóðnum.

Ákvörðun var tekin um einkavæðingu Føroya banka á hundrað ára afmæli hans í fyrra. Á mánudag sendi bankinn frá sér útboðslýsingu. Þar kemur fram að frá og með 11. júní verði 66 prósent hlutabréfa hans til sölu í opnu útboði. Er áætlað að því ljúki hinn 19. júní en í fyrsta lagi hinn 13. júní klukkan 15 að íslenskum tíma.

Í útboðinu eru í boði sex milljónir hluta á tuttugu krónur danskar hver að nafnvirði. Að auki er heimild til umfram­úthlutunar 600 þúsund hluta. Er áætlað að verð hlutanna muni liggja á bilinu 162 til 189 danskar krónur. Það þýðir að markaðsvirði bankans liggur á bilinu 1,62 til 1,89 milljarðar danskra króna. Það er á bilinu rúmlega 18 til rúmlega 21 milljarður íslenskra króna.

Mikill undirbúningur að baki
Frá kynningarfundi útboðsins Eyðun á Rógvi, stjórnarformaður Fíggingar­grunnurin frá 1992, Súni Schwartz Jacobsen, framkvæmdastjóri Føroya banka, Janus Petersen, forstjóri Føroya banka, og Jóhan Páll, stjórnarformaður Føroya banka.

Ef færeyska ferlið verður eitthvað líkt því íslenska er óhætt að segja að bankinn, sem Janus Peter­sen hefur stýrt undanfarin ár og starfað hjá í þrettán ár, muni ganga í gegnum stökkbreytingu. „Við eigum mikið verkefni fyrir höndum,” segir Janus. „En við erum líka vel undirbúin. Við hófum undirbúning einkavæðingarinnar fyrir rétt um tveimur árum síðan.

Við höfum meðal annars verið að bæta kjarnahæfni okkar og alla innviði bankans. Við höfum líka laðað að okkur mikið af nýju og hæfu starfsfólki. Við höfum stækkað hratt, um 33 prósent á síðasta ári. Við vissum að við þyrftum að bjóða þétta og góða þjónustu þegar við yrðum skráð á hlutabréfamarkað og okkur hefur tekist það. Við erum fullviss um að við getum haldið áfram að vaxa og gefið fjárfestum okkar góða ávöxtun.“

Þjónustuframboð Føroya banka er sambærilegt framboði annarra norrænna banka. Starfsemi bankans skiptist í þrjú megin­svið: viðskiptabankasvið, fyrirtækjasvið og verðbréfasvið. Þar að auki á og rekur bankinn annað stærsta vátryggingafélag Færeyja, Trygd. Alls starfa hjá bankanum um 225 manns, viðskiptavinir hans eru um átján þúsund og fyrirtæki í viðskiptum við bankann eru sautján hundruð.

Hagnaður Føroya banka á árinu 2006, fyrir afskriftir útlána og skatta, nam 125 milljónum danskra króna. Lánastarfsemi jókst um 33 prósent milli ára og var 5,4 milljarðar danskra króna. Hagnaðurinn á fyrsta ársfjórðungi 2007 setti líka góðan tón fyrir áframhaldandi vöxt á árinu og nam 49 milljónum danskra króna. Er áætlaður hagnaður fyrir afskriftir útlána og skatta á árinu 2007 145 til 165 milljónir danskra króna.

Búist við góðri þátttöku

Hlutabréf Føroya banka verða skráð í Kauphöll Íslands og í kauphöllina í Kaupmannahöfn. Íslenska kauphöllin verður aðal­skráningarstaður bréfanna. Áætlað er að viðskipti með bréf í bankanum hefjist í kauphöllunum í kringum 21. júní.

Ákvörðun um tvíhliða skráningu var tekin til að tryggja sem víðtækasta þátttöku í útboðinu. Almenningi í Færeyjum, Íslandi og Danmörku og alþjóðlegum stofnanafjárfestum býðst að taka þátt í því. Færeyska landstjórnin hefur lagt töluvert upp úr því að virkja áhuga Færeyinga á þátttöku í útboðinu. Mikið hefur verið lagt upp úr kynningu útboðsins í Færeyjum og er almennt búist við góðri þátttöku. Janus býst einnig við góðri þátttöku hér á landi. „Við höfum þegar fengið vísbendingar um að áhuginn sé mikill á Íslandi. Okkur skilst að Landsbankinn, sem sér um útboðið á Íslandi, hafi fengið talsvert margar fyrirspurnir um skráninguna. Þá höfum við átt fundi með mörgum íslenskum fjárfestum sem hafa áhuga á að eignast hlut í bankanum. Við vonumst líka eftir góðri þátttöku íslensks almennings.“ Greining Glitnis mælti í Morgunkorni sínu í gær með kaupum í bankanum.

Sem fyrr segir er Føroya banki meðal stærstu banka Færeyja, með 44 prósenta markaðshlutdeild í útlánum og 39 prósenta hlutdeild á innlánamarkaði. Bankinn rekur tuttugu útibú í Færeyjum. Stefna hans er að verða leiðandi í fjármálastarfsemi í Færeyjum og að bjóða valda fjármálaþjónustu á alþjóðlegum vetttvangi. Helsta markmið bankans er tíu prósenta samfelldur meðalvöxtur á ári hvað varðar hreinar vaxtatekjur og þóknanir og tólf prósenta langtímahagnaður eftir skatta af hlutafjáreign. Til að ná þessum markmiðum horfa stjórnendur bankans til samstarfs við norræna banka. Janus segir ekki ólíkegt að Føroya banki muni fjárfesta í eða auka samstarf við íslenska banka. Íslendingar muni verða meira varir við Færeyinga í viðskiptalífinu í framtíðinni.

Jákvæðir gagnvart einkavæðingu

Einkavæðing Føroya banka er fyrsta skref færeysku land­stjórnar­innar í mikilli einkavæðingarbylgju sem fram undan er. Önnur fyrirtæki sem fyrir­hugað er að einkavæða eru lífeyris­sjóðurinn Liv pensionsselskab, flugfélagið Atlantic Airways og símafyrirtækið Føroya Tele. Einkavæðingin byggir að miklu leyti á reynslu Íslendinga.

„Þetta er að mínu mati nokkuð nákvæm afritun af ferlinu eins og það var á Íslandi,” segir Janus. Hann segir Færeyinga upp til hópa jákvæða í garð einkavæðingar Føroya banka. „Fólk lítur á þetta sem nýja byrjun. Á kynningarfundi einkavæðingarinnar fundum við fyrir afar jákvæðu viðmóti. Það er ljóst að einkavæðing bankans er gæfuspor fyrir Færeyjar. Dagur kynningarfundarins var sá besti á árinu. Sólin skein og hitastigið náði tuttugu stigum. Framtíðin brosir við okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×