Fastir pennar

Súrsun og símaþjónusta

Heimurinn er alltaf að breytast sem betur fer. Flest erum við hætt að súrsa bringukolla og sundmaga til manneldis. Bændur halda þó áfram að súrsa hey, þótt plastpokar hafi leyst gömlu súrheys­turnana af hólmi. Súrsun er gömul og góð geymsluaðferð til sjós og lands og gengur nú í endurnýjun lífdaganna í iðnaði, verzlun og þjónustu. Hér segir frá því.

Þetta byrjaði í þjónustugeiranum, þar sem fjarskiptabyltingin hafði keyrt símakostnað niður í næstum ekki neitt, einnig milli landa í krafti frívæðingar í viðskiptum. Snjallir og útsjónarsamir framkvæmdastjórar í Bandaríkjunum og Evrópu sáu það í hendi sér, að það gat borgað sig að súrsa símaþjónustuna með því að senda hana til Indlands. Hvers vegna skyldu þeir nota dýran mannskap heima fyrir til að svara í símann hjá sér, ef þeir gátu keypt sömu þjónustu á Indlandi við miklu lægra verði? Indverjar kunna ensku, engin fyrirstaða þar. Þeir héldu m.a.s. námskeið til að kenna indverskum símsvörum margs konar málhreim, svo að símtölum frá Texas er svarað þýðum suðurríkjarómi. Hringjarinn hefur ekki hugmynd um, að hann er að tala við Indland. Teningunum var kastað.Súrsun út á við í atvinnurekstri er í reyndinni geymsluaðferð eða kannski réttara sagt umskipunaraðferð líkt og súrsun matar og heyja: vinnuveitandinn geymir sér og öðrum staðbundið vinnuafl með því að umskipa því inn á arðvænlegri brautir. Vinnandi hugir og hendur rata ekki að vísu alltaf beint í betur launuð störf og geta því þurft að afla sér nýrrar þekkingar og þjálfunar í millitíðinni eða jafnvel sæta iðjuleysi, en á endanum finna flestir sér eitthvað gott og gagnlegt að gera. Það er reglan. Atvinnuleysi er undantekningin.

Súrsun tekur á sig margar myndir á vinnumarkaði. Fiskverkunarstöðvarnar hringinn í kringum Ísland flytja nú inn erlent vinnuafl í stórum stíl og hafa gert það um árabil, því að Íslendingar fúlsa nú flestir við fiskverkun. Ætli veiðarnar séu á sömu siglingu? Kannski. Útvegsmenn leita nú sumir að erlendum mannskap á skipin. Hvað um það, súrsun inn á við í fiskvinnslu sér til þess, að beggja hag er borgið. Erlendir verkamenn þiggja glaðir betri kjör en þeim bjóðast heima hjá sér. Heimamenn finna sér heldur aðra og betur launaða vinnu. Útlendingarnir ná smám saman nógu traustri fótfestu á nýjum slóðum til að geta keppt við heimamenn um ýmis önnur störf: þeir verða smám saman Íslendingar.

Svipuðu máli gegnir um framkvæmdirnar fyrir austan. Sjötti hver íbúi Austurlands er nú útlendingur, segja þau á Hagstofunni. Innflutningur verkafólks að utan gerir okkur kleift að vinna verk, sem ella hefðu orðið okkur ofviða, og hjálpar okkur í ofanálag að halda verðbólgunni í skefjum. Súrsun inn á við í heilbrigðisþjónustunni er angi á sama meiði: álitlegur hluti starfsfólks sjúkrahúsanna er nú af erlendu bergi brotinn, af því að Íslendingar fúlsa flestir við þeim launum, sem þar eru í boði. Skólakerfið færi kannski sömu leið, ef nógu margir útlendingar kynnu nóg í íslenzku til að kenna börnum og unglingum að lesa og skrifa. Ég keypti bensín af Kínverja við Skúlagötuna í Reykjavík um daginn; hann hefur verið hér í tíu ár og talar óaðfinnanlega íslenzku. Og ég heyrði ekki alls fyrir löngu síberíska söngkonu syngja Draumalandið og Litfríð og ljóshærð í Salnum í Kópavogi; hún fór svo vel með lögin og textann, að tárin flóðu niður kinnar áheyrenda. Svona á lífið að vera.

Ég hef heyrt stjórnendur bandarískra fyrirtækja lýsa áhyggjum af því, að öll þessi súrs­un út og suður geti gengið of langt. Það er fínt að súrsa ýmis þjónustustörf inn og út, segja þeir, t.d. ræstingar og símsvörun. En getum við leyft okkur að súrsa hátæknistörfin líka? Nei, þá er voðinn vís. Forstjórarnir lýsa bandarískum unglingum, sem hugsa sem svo: hví skyldum við slíta okkur út við að læra stærðfræði, ef við getum hvort sem er keypt alla heimsins útreikninga af sprenglærðum Indverjum? Þarna er sóknarfæri handa Indlandi, því að þar eru nokkrir beztu tækniháskólar heims og fjölmörg hátæknifyrirtæki í fremstu röð, einkum í Bangalor. Þessi keppni frá Indlandi ætti þó að réttu lagi að brýna fyrir Bandaríkjamönnum og öðrum nauðsyn þess að halda vöku sinni. Bæði löndin geta hagnazt á því að súrsa vinnuaflið á báða bóga. Margir vel menntaðir Indverjar eru nú aftur komnir heim til að leggja hönd á plóg að loknu löngu starfi í Bandaríkjunum og Evrópu.


×