Er fullveldisafsal frágangssök? 28. desember 2006 05:00 Hjónabönd eru að sönnu misjöfn að gæðum, eins og Guðmundur Ólafsson lektor sagði einhverju sinni um símtöl að gefnu tilefni. Samt er hjónabandið efalaust eitthvert allra dásamlegasta uppátæki mannskepnunnar frá öndverðu og jafnast á við eldinn og hjólið, lýðræði og markaðsbúskap. Reynsla árþúsundanna ber vitni. Eftir allan þennan óratíma er hjónabandið enn sem endranær ein mikilvægasta skipulagseining samfélagsins víðast hvar um heiminn, einnig meðal frumstæðra þjóða, sem svo eru nefndar. Til þess liggja bæði hagnýtar og tilfinningalegar ástæður, sem óþarft er að rekja hér. Hugmyndin að baki hjónabandinu á það sameiginlegt með eldinum og hjólinu, að hún er hæf til margra nota. Um það mætti hafa langt mál, en hér ætla ég að staldra við eitt afmarkað atriði. Þegar fólk giftist, fórnar það fullveldi sínu - eða réttar sagt: það ákveður með vitund og vilja að deila fullveldi sínu með maka sínum. Sáttmálinn snýst um það. Þetta teljast varla mikil tíðindi. Hjónaband útheimtir fullveldisframsal samkvæmt lögum og boðum kristinna manna og annarra. Óvígð sambúð kemur stundum nokkurn veginn í sama stað niður frá hagnýtu sjónarmiði. Hvers vegna framselja menn fullveldi sitt af fúsum og frjálsum vilja við giftingu? Spurningin svarar sér sjálf, og svarið er tvíþætt. Í fyrsta lagi er hag barnanna jafnan betur borgið í faðmi fjölskyldunnar og meira er um það vitað, hver á hvaða börn. Þetta skiptir máli vegna þess, að mannskepnan er eigingjörn líkt og aðrar skepnur: hún gerir greinarmun á eigin börnum og annarra. Annars væri ekkert mál að vera munaðarleysingi. Nú gæti einhver sagt: á okkar dögum er hægt að notast við lífsýnapróf til að skera úr vafamálum um barnsfaðerni, svo að það er engin brennandi þörf lengur fyrir hjónabönd sem upplýsingaveitu. Heldur væri þess háttar skipan þó þung í vöfum frá degi til dags, og hvimleið. Og þá berast böndin að hinu atriðinu, sem er afbrýði, ein af frumhvötum mannsins og margra annarra dýra. Að vísu er afbrýði líkast til að einhverju marki útrás fyrir frumþörfina fyrir að gera greinarmun á eigin afkvæmum og annarra, en varla að öllu leyti, svo sem ráða má af unglingaástum og afbrýði löngu áður en barneignir og aðrar búsorgir komast á dagskrá. En hjónabönd henta ekki öllum. Sumir kjósa helzt að búa einir og una hag sínum vel, frelsinu fegnir: ekkert fullveldisframsal þar. Nú ert þú líklega búinn að átta þig á því, lesandi minn góður, að ég er að tala um Evrópusambandið (ESB). Nema hvað. Sambandsþjóðirnar hafa glaðar afsalað sér fullveldi sínu að vandlega reifuðu máli - eða réttar sagt: þær ákváðu að deila fullveldi sínu með öðrum aðildarþjóðum. Þetta er höfuðtilgangur ESB: að reyna að draga á réttum stað mörkin milli sammála, sem hagfelldast er fyrir löndin að leysa saman, og sérmála, sem betur fer á að leysa á hverjum stað fyrir sig. Höfuðreglan er nálægðarregla: mál eru helzt leyst á þeim vettvangi, sem bezt þykir eiga við hverju sinni, helzt sem næst fólkinu sjálfu. En sum mál eru ekki sérmál, heldur sammál og kalla því á sameiginlegar lausnir. Listin er sem sagt að draga mörkin á réttum stað. Engum dettur í hug, að húnæðismál séu sammál; þau eru klárlega auðleystari á hverjum stað fyrir sig. Það er meira að segja álitamál, hvort húsnæðismál eigi yfirhöfuð að koma til kasta almannavaldsins nema í neyðartilfellum, en látum það vera. Glæpamál og umhverfismál eru á hinn bóginn sammál í aðra röndina, því að glæpamenn og mengun virða engin landamörk. Og þá verður það einnig auðskiljanlegt, hvers vegna samkeppnismál eru öðrum þræði sammál. Samkeppnislögum er ætlað að torvelda fyrirtækjum að okra á almenningi. Þess vegna brýtur verðsamráð fákeppnisfyrirtækja gegn lögum. Háttalag, sem var algengt og löglegt á Íslandi um langt árabil, til dæmis í bönkum og olíufélögum, varðar nú loksins við lög til að vernda almannahag, og þótt fyrr hefði verið. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) síðan 1994 hefur veitt fólkinu í landinu langþráða lagavernd gegn gamla okrinu: vernd, sem þjóðin gat ekki veitt sér af sjálfsdáðum. Samkeppniseftirliti ESB er ætlað að styðja við bakið á samkeppniseftirliti einstakra aðildarlanda. Það er því ef til vill engin furða, að andstaðan gegn inngöngu Íslands í ESB skuli vera einna mest og megnust meðal gömlu okraranna og bandamanna þeirra í Sjálfstæðisflokknum, og víðar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Leiðréttum launin Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Sveitarfélögin okkar eiga alls ekki að skipta við Rapyd Hópur íbúa í sveitarfélögum sem stunda viðskipti við Rapyd Skoðun Byggjum raðhús í Hvalfjarðargöngum Matthías Arngrímsson Skoðun Óskrifuðu Pálínuboðorðin Óskar Jónasson Skoðun Stafræn þjónustubylting Reykjavíkurborgar vekur heimsathygli Alexandra Briem Skoðun Sjálfskipaðir sérfræðingar samgöngumála Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir Skoðun JL húsið og að éta það sem úti frýs… Sveinn Hjörtur Guðfinnsson Skoðun Þú ert númer 1155 í röðinni Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Lagarammi um lögbrot Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Á bak við tjöldin Arnar Þór Jónsson Skoðun
Hjónabönd eru að sönnu misjöfn að gæðum, eins og Guðmundur Ólafsson lektor sagði einhverju sinni um símtöl að gefnu tilefni. Samt er hjónabandið efalaust eitthvert allra dásamlegasta uppátæki mannskepnunnar frá öndverðu og jafnast á við eldinn og hjólið, lýðræði og markaðsbúskap. Reynsla árþúsundanna ber vitni. Eftir allan þennan óratíma er hjónabandið enn sem endranær ein mikilvægasta skipulagseining samfélagsins víðast hvar um heiminn, einnig meðal frumstæðra þjóða, sem svo eru nefndar. Til þess liggja bæði hagnýtar og tilfinningalegar ástæður, sem óþarft er að rekja hér. Hugmyndin að baki hjónabandinu á það sameiginlegt með eldinum og hjólinu, að hún er hæf til margra nota. Um það mætti hafa langt mál, en hér ætla ég að staldra við eitt afmarkað atriði. Þegar fólk giftist, fórnar það fullveldi sínu - eða réttar sagt: það ákveður með vitund og vilja að deila fullveldi sínu með maka sínum. Sáttmálinn snýst um það. Þetta teljast varla mikil tíðindi. Hjónaband útheimtir fullveldisframsal samkvæmt lögum og boðum kristinna manna og annarra. Óvígð sambúð kemur stundum nokkurn veginn í sama stað niður frá hagnýtu sjónarmiði. Hvers vegna framselja menn fullveldi sitt af fúsum og frjálsum vilja við giftingu? Spurningin svarar sér sjálf, og svarið er tvíþætt. Í fyrsta lagi er hag barnanna jafnan betur borgið í faðmi fjölskyldunnar og meira er um það vitað, hver á hvaða börn. Þetta skiptir máli vegna þess, að mannskepnan er eigingjörn líkt og aðrar skepnur: hún gerir greinarmun á eigin börnum og annarra. Annars væri ekkert mál að vera munaðarleysingi. Nú gæti einhver sagt: á okkar dögum er hægt að notast við lífsýnapróf til að skera úr vafamálum um barnsfaðerni, svo að það er engin brennandi þörf lengur fyrir hjónabönd sem upplýsingaveitu. Heldur væri þess háttar skipan þó þung í vöfum frá degi til dags, og hvimleið. Og þá berast böndin að hinu atriðinu, sem er afbrýði, ein af frumhvötum mannsins og margra annarra dýra. Að vísu er afbrýði líkast til að einhverju marki útrás fyrir frumþörfina fyrir að gera greinarmun á eigin afkvæmum og annarra, en varla að öllu leyti, svo sem ráða má af unglingaástum og afbrýði löngu áður en barneignir og aðrar búsorgir komast á dagskrá. En hjónabönd henta ekki öllum. Sumir kjósa helzt að búa einir og una hag sínum vel, frelsinu fegnir: ekkert fullveldisframsal þar. Nú ert þú líklega búinn að átta þig á því, lesandi minn góður, að ég er að tala um Evrópusambandið (ESB). Nema hvað. Sambandsþjóðirnar hafa glaðar afsalað sér fullveldi sínu að vandlega reifuðu máli - eða réttar sagt: þær ákváðu að deila fullveldi sínu með öðrum aðildarþjóðum. Þetta er höfuðtilgangur ESB: að reyna að draga á réttum stað mörkin milli sammála, sem hagfelldast er fyrir löndin að leysa saman, og sérmála, sem betur fer á að leysa á hverjum stað fyrir sig. Höfuðreglan er nálægðarregla: mál eru helzt leyst á þeim vettvangi, sem bezt þykir eiga við hverju sinni, helzt sem næst fólkinu sjálfu. En sum mál eru ekki sérmál, heldur sammál og kalla því á sameiginlegar lausnir. Listin er sem sagt að draga mörkin á réttum stað. Engum dettur í hug, að húnæðismál séu sammál; þau eru klárlega auðleystari á hverjum stað fyrir sig. Það er meira að segja álitamál, hvort húsnæðismál eigi yfirhöfuð að koma til kasta almannavaldsins nema í neyðartilfellum, en látum það vera. Glæpamál og umhverfismál eru á hinn bóginn sammál í aðra röndina, því að glæpamenn og mengun virða engin landamörk. Og þá verður það einnig auðskiljanlegt, hvers vegna samkeppnismál eru öðrum þræði sammál. Samkeppnislögum er ætlað að torvelda fyrirtækjum að okra á almenningi. Þess vegna brýtur verðsamráð fákeppnisfyrirtækja gegn lögum. Háttalag, sem var algengt og löglegt á Íslandi um langt árabil, til dæmis í bönkum og olíufélögum, varðar nú loksins við lög til að vernda almannahag, og þótt fyrr hefði verið. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) síðan 1994 hefur veitt fólkinu í landinu langþráða lagavernd gegn gamla okrinu: vernd, sem þjóðin gat ekki veitt sér af sjálfsdáðum. Samkeppniseftirliti ESB er ætlað að styðja við bakið á samkeppniseftirliti einstakra aðildarlanda. Það er því ef til vill engin furða, að andstaðan gegn inngöngu Íslands í ESB skuli vera einna mest og megnust meðal gömlu okraranna og bandamanna þeirra í Sjálfstæðisflokknum, og víðar.
Sveitarfélögin okkar eiga alls ekki að skipta við Rapyd Hópur íbúa í sveitarfélögum sem stunda viðskipti við Rapyd Skoðun
Sveitarfélögin okkar eiga alls ekki að skipta við Rapyd Hópur íbúa í sveitarfélögum sem stunda viðskipti við Rapyd Skoðun