Okkar stríð, okkar friður 18. maí 2006 00:01 Íslendingar standa nú frammi fyrir nýjum veruleika í varnarmálum. Bandaríkjastjórn hefur í reyndinni rift varnarsamningi landanna frá 1951 gegn vilja ríkisstjórnar Íslands. Riftunin á sér langan aðdraganda, því að Bandaríkjamenn hafa árum saman látið á sér skiljast, að hrun Sovétríkjanna 1991 kalli á endurskoðun varna á Norður-Atlantshafi. Þetta er skiljanlegt viðhorf. Ríkisstjórn Íslands láðist að nota tímann til að leggja drög að nýrri skipan varnarmálanna. Svo virðist sem stjórnin hafi ekki trúað því, að Bandaríkjastjórn myndi standa við orð sín. Ríkisstjórn Íslands virtist koma af fjöllum, þegar Kaninn kunngerði brottför hersins frá Keflavík fyrr á þessu ári. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafði enga varaáætlun fram að færa ekkert plan B. Ríkisstjórnin hefur sýnt af sér hirðuleysi um brýna hagsmuni Íslands í utanríkis- og varnarmálum. Eða hvað ætli forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið hefðu sagt, ef vinstri stjórn hefði skilið Ísland eftir varnarlaust án þess að hafa gert sýnilegar gagnráðstafanir? Fyrirhyggjuleysi ríkisstjórnarinnar í varnarmálunum þarf þó ekki að koma neinum á óvart, því að landsstjórnin hefur að ýmsu öðru leyti verið sama marki brennd undangengin ár, svo sem verðbólgan (átta prósent síðustu tólf mánuði) vitnar um. Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar, einkum Sjálfstæðisflokksins, um aðild Íslands að ESB þarf að skoða í þessu samhengi. Þáverandi forsætisráðherra (nú seðlabankastjóri) líkti evrunni við gjaldmiðil Norður-Kóreu í sjónvarpsviðtali við Egil Helgason blaðamann ekki alls fyrir löngu: það áttu víst að vera rök fyrir því, að Ísland þyrfti ekki á evrunni að halda. Reynsla Eystrasaltsríkjanna bregður birtu á málið. Við hrun Sovétríkjanna stóðu Eistland, Lettland og Litháen skyndilega varnarlaus frammi fyrir umheiminum. Herlið Sovétmanna hvarf á braut við almennan og langþráðan fögnuð fólksins í þessum löndum, og þau þurftu þá að endurskipuleggja varnir sínar. Hvað gerðu Eistar? Þeir ákváðu, að varnarlausir gætu þeir ekki verið. Að loknum vandlegum undirbúningi gengu þeir í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið 2004, og þeir hyggjast taka upp evruna í stað krónunnar um leið og þeir ná verðbólgunni niður fyrir þrjú prósent á ári í samræmi við inntökuskilyrði ESB, sennilega 2008. Verðbólgan í Eistlandi er nú innan við fjögur prósent á ári, hún skreið upp fyrir þrjú prósent vegna hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði, en ríkisstjórnin ákvað að falsa ekki vísitöluna með því til dæmis að lækka virðisaukaskatt á móti, svo sem henni hefði þó verið í lófa lagið, því að þannig vinna menn ekki í Tallinn. Hvað um það, Eistar settu ákvæði um herskyldu í stjórnarskrá landsins 1992. Hernum var síðan breytt úr 3.000 manna skylduher 1992 í 8.000 manna sjálfboðaher 2003. Útgjöld Eista til varnarmála hafa aukizt úr hálfu prósenti af landsframleiðslu 1992 upp í tæp tvö prósent 2003. Þetta þýðir, að Eistar verja til varnarmála sextándu hverri krónu, sem kemur inn í ríkiskassann. Eistum dugir ekki aðildin að NATÓ og ESB; þeir telja einnig nauðsynlegt að halda úti dýru heimavarnarliði. Þessa ákvörðun Eista þarf vitaskuld að skoða í ljósi biturrar reynslu þeirra af nábýlinu við Rússa, en eingöngu? Þar er efinn. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki enn lagt fram tillögur um það, hvernig tryggja skuli varnir landsins eftir brottför hersins, úr því að Bandaríkjastjórn telur ekki lengur vera þörf fyrir herlið eða þotur hér á vegum NATÓ til að tryggja sameiginlegar varnir. Ætla verður, að Bandaríkjastjórn hafi ráðfært sig við NATÓ um þessa niðurstöðu. Stofnaðild Íslands að NATÓ 1949 var ekki reikningsdæmi. Ríkisstjórn Íslands og Alþingi settust ekki niður til að leggja kosti og galla aðildar á vogarskálar. Ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka og Alþýðuflokksins 1947-49 sagði þá einfaldlega: í þessum félagsskap viljum við vera til að efla sameiginlegar varnir bandalagsþjóðanna og eigin varnir. Hún þurfti engar úttektir, enga útreikninga. Við ættum kannski að hugsa þannig um ESB, úr því að það er í fyrsta lagi friðarbandalag með efnahagslegu og pólitísku ívafi, sem er ætlað að vera bindivefur varanlegs friðar í álfunni. Reynslan frá öldinni sem leið kennir okkur, að stríð og friður í Evrópu eru einnig okkar stríð og friður. Við eigum ekki að sitja uppi á vegg í sameinaðri Evrópu, allra sízt í vanhugsuðu eiginhagsmunaskyni. Við eigum heima í Evrópu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Háskóli Íslands er ekki að sinna skyldum sínum Silja Höllu Egilsdóttir Skoðun Spilling á Íslandi: Erum við að missa tökin? Ágústa Árnadóttir Skoðun Sleppum brúnni og förum betri leið framhjá Selfossi Elliði Vignisson Skoðun Foreldrar eru sérfræðingar í sínum börnum Valdimar Víðisson Skoðun Dauðarefsing Pírata Sigurjón Þórðarson Skoðun Smábátar eru þjóðhagslega hagkvæmari en togarar Kjartan Sveinsson Skoðun Af hverju erum við að þessu? Kjartan Sveinn Guðmundsson Skoðun Upplýsingaóreiða í boði orkugeirans og Landsvirkjunar Snæbjörn Guðmundsson Skoðun Verðmætasköpun og kennarar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Að dansa í regninu Lóa Björk Ólafsdóttir Skoðun
Íslendingar standa nú frammi fyrir nýjum veruleika í varnarmálum. Bandaríkjastjórn hefur í reyndinni rift varnarsamningi landanna frá 1951 gegn vilja ríkisstjórnar Íslands. Riftunin á sér langan aðdraganda, því að Bandaríkjamenn hafa árum saman látið á sér skiljast, að hrun Sovétríkjanna 1991 kalli á endurskoðun varna á Norður-Atlantshafi. Þetta er skiljanlegt viðhorf. Ríkisstjórn Íslands láðist að nota tímann til að leggja drög að nýrri skipan varnarmálanna. Svo virðist sem stjórnin hafi ekki trúað því, að Bandaríkjastjórn myndi standa við orð sín. Ríkisstjórn Íslands virtist koma af fjöllum, þegar Kaninn kunngerði brottför hersins frá Keflavík fyrr á þessu ári. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafði enga varaáætlun fram að færa ekkert plan B. Ríkisstjórnin hefur sýnt af sér hirðuleysi um brýna hagsmuni Íslands í utanríkis- og varnarmálum. Eða hvað ætli forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið hefðu sagt, ef vinstri stjórn hefði skilið Ísland eftir varnarlaust án þess að hafa gert sýnilegar gagnráðstafanir? Fyrirhyggjuleysi ríkisstjórnarinnar í varnarmálunum þarf þó ekki að koma neinum á óvart, því að landsstjórnin hefur að ýmsu öðru leyti verið sama marki brennd undangengin ár, svo sem verðbólgan (átta prósent síðustu tólf mánuði) vitnar um. Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar, einkum Sjálfstæðisflokksins, um aðild Íslands að ESB þarf að skoða í þessu samhengi. Þáverandi forsætisráðherra (nú seðlabankastjóri) líkti evrunni við gjaldmiðil Norður-Kóreu í sjónvarpsviðtali við Egil Helgason blaðamann ekki alls fyrir löngu: það áttu víst að vera rök fyrir því, að Ísland þyrfti ekki á evrunni að halda. Reynsla Eystrasaltsríkjanna bregður birtu á málið. Við hrun Sovétríkjanna stóðu Eistland, Lettland og Litháen skyndilega varnarlaus frammi fyrir umheiminum. Herlið Sovétmanna hvarf á braut við almennan og langþráðan fögnuð fólksins í þessum löndum, og þau þurftu þá að endurskipuleggja varnir sínar. Hvað gerðu Eistar? Þeir ákváðu, að varnarlausir gætu þeir ekki verið. Að loknum vandlegum undirbúningi gengu þeir í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið 2004, og þeir hyggjast taka upp evruna í stað krónunnar um leið og þeir ná verðbólgunni niður fyrir þrjú prósent á ári í samræmi við inntökuskilyrði ESB, sennilega 2008. Verðbólgan í Eistlandi er nú innan við fjögur prósent á ári, hún skreið upp fyrir þrjú prósent vegna hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði, en ríkisstjórnin ákvað að falsa ekki vísitöluna með því til dæmis að lækka virðisaukaskatt á móti, svo sem henni hefði þó verið í lófa lagið, því að þannig vinna menn ekki í Tallinn. Hvað um það, Eistar settu ákvæði um herskyldu í stjórnarskrá landsins 1992. Hernum var síðan breytt úr 3.000 manna skylduher 1992 í 8.000 manna sjálfboðaher 2003. Útgjöld Eista til varnarmála hafa aukizt úr hálfu prósenti af landsframleiðslu 1992 upp í tæp tvö prósent 2003. Þetta þýðir, að Eistar verja til varnarmála sextándu hverri krónu, sem kemur inn í ríkiskassann. Eistum dugir ekki aðildin að NATÓ og ESB; þeir telja einnig nauðsynlegt að halda úti dýru heimavarnarliði. Þessa ákvörðun Eista þarf vitaskuld að skoða í ljósi biturrar reynslu þeirra af nábýlinu við Rússa, en eingöngu? Þar er efinn. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki enn lagt fram tillögur um það, hvernig tryggja skuli varnir landsins eftir brottför hersins, úr því að Bandaríkjastjórn telur ekki lengur vera þörf fyrir herlið eða þotur hér á vegum NATÓ til að tryggja sameiginlegar varnir. Ætla verður, að Bandaríkjastjórn hafi ráðfært sig við NATÓ um þessa niðurstöðu. Stofnaðild Íslands að NATÓ 1949 var ekki reikningsdæmi. Ríkisstjórn Íslands og Alþingi settust ekki niður til að leggja kosti og galla aðildar á vogarskálar. Ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka og Alþýðuflokksins 1947-49 sagði þá einfaldlega: í þessum félagsskap viljum við vera til að efla sameiginlegar varnir bandalagsþjóðanna og eigin varnir. Hún þurfti engar úttektir, enga útreikninga. Við ættum kannski að hugsa þannig um ESB, úr því að það er í fyrsta lagi friðarbandalag með efnahagslegu og pólitísku ívafi, sem er ætlað að vera bindivefur varanlegs friðar í álfunni. Reynslan frá öldinni sem leið kennir okkur, að stríð og friður í Evrópu eru einnig okkar stríð og friður. Við eigum ekki að sitja uppi á vegg í sameinaðri Evrópu, allra sízt í vanhugsuðu eiginhagsmunaskyni. Við eigum heima í Evrópu.