Fastir pennar

Rétt verð?

Fyrir venjulegt fólk úti í bæ virka kaup Flugleiða á Sterling gjörsamlega óskiljanlega. Það hafa heldur ekki verið veittar neinar almennilegar skýringar á því hvers vegna fyrirtæki sem er keypt á 4 milljarða er stuttu síðar selt á 15 milljarða. Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, birtir stórfurðulegan leiðara um að þessar hugmyndir byggi á þeirri villu að sé til eitthvað sem heiti "rétt verð". Þetta er svona dæmigert nýja hagkerfis-bull. Hlutir kosta sitt; það kemur barasta ekki alltaf að skuldadögunum fyrr en seinna. Og þá er spurning hverjir borga.

Mennirnir sem standa á bak við kaupin eru helldur ekki beint traustvekjandi. Einkennilega eru menn fljótir að gleyma á Íslandi. Pálmi Haraldsson var aðalmaðurinn í grænmetissvindlinu stóra. Fór eftir það huldu höfði og lét aðra svara fyrir málið. Þetta var massíft samsæri gegn íslenskum neytendum.

Hannes Smárason var aðstoðarforstjóri hjá Decode á tíma hlutafjárútboðsins fræga. Við munum öll eftir því hvernig gengi fyrirtækisins var skipulega talað upp hér á gráa markaðnum. Öll þessi mylla kostaði fjölda Íslendinga aleiguna.

Þannig að við eigum ekkert sérstaklega góðu að venjast af þessum mönnum.

--- --- ---

Það hlýtur líka að vekja stórar spurningar að sómafólk eins og Inga Jóna og Ragnhildur Geirsdóttir hverfa snögglega frá fyrirtækinu. Í staðinn eru komnir í stjórn strákar eins og Sigurður Bollason og Magnús Ármann – sem til skamms tíma rak nektarstað í miðbænum. Þeir eru svona liðléttingar í klíkunni, með stóru körlunum, Pálma, Hannesi og Jóni Ásgeiri.

--- --- ---

Nú er lika ljóst að flugfélögin Iceland Express og Flugleiðir eru komin í hendur sömu manna. Því hafði svosem verið spáð; milli eigenda félaganna hafa verið margvísleg tengsl, leynd og ljós. Pálmi Haraldsson hefur sagt af sér sem stjórnarformaður Iceland Express. Nýr stjórnarmaður er Einar Þór Sverrisson lögmaður. Varla breytir það þó miklu því Einar og Pálmi eru nánir samverkamenn: Einar situr í stjórnum fyrirtækja á vegum Pálma og hefur gegnt lögfræðistörfum fyrir Baugsmenn.

En það stendur reyndar til að selja Iceland Express. Vonandi tekst að finna eitthvað sem telst vera "rétt verð" fyrir félagið.

--- --- ---

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, nýkjörinn stjórnarformaður og nú forstjóri Icelandic Group (fyrrum Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna – jú, þau eru asnaleg þessi nöfn!) lýsti því yfir í viðtali einu sinni að hann hefði flutt úr Reykjavík í Garðabæinn vegna þess að hann þoldi ekki R-listann.

Þess vegna er kannski ekki ráðgáta hvers vegna fyrsta verk Gunnlaugs og félaga eftir að þeir tóku við fyrirtækinu var að reka Þórólf Árnason; maður ímyndar sér að þeir þori varla að vera í sama herbergi og maður með svo eindreginn R-lista stimpil.

--- --- ---

En Þórólfur er aftur á lausu – fólk er næstum farið að vorkenna honum sökum þess hvað hann tollir illa í vinnu. Það er kannski ekki gott fyrir framtíðarhorfurnar. En er hann ekki borgarstjóraefnið sem Samfylkingin er að leita að? Sá eini sem tók afleiðingum gjörða sinna í olíumálinu og hefur því, einn manna, náð að kasta þeim syndapakka á bak við sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×