Sport

Vill fleri frá FH í landsliðið

Framganga FH í Landsbankadeild karl í sumar hefur verðskuldaða athygli, en liðið hefur unnið alla tíu deildarleiki sína í sumar. Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, segir nokkra leikmenn liðsins eiga skilið að fá sæti í landsliði Íslands og vonast til þess að landsliðsþjálfararnir horfi ekki framhjá frammistöðu þeirra í sumar.  "Mér finnst nokkrir leikmenn eiga skilið að vera valdir. Ég get nefnt sérstaklega Daða Lárusson markmann og Guðmund Sævarsson, sem valinn var í fyrra en fékk einhverra hluta vegna ekki möguleika á því að spila fyrir landsliðið. Þeir hafa ekki verið að spila síður vel í sumar en í fyrra, og hafa sýnt það og sannað að þeir geta vel spilað fyrir íslenska landsliðið." Val á landsliðshóp hefur oft verið gagnrýnt. Sérstaklega hafa knattspyrnuáhugamenn stundum furðað sig á því að leikmenn sem spila hér á landi eigi varla möguleika á því að komast í liðið. "Það er nú ekki ég sem vel liðið, en mér finnst það ekkert óeðlilegt að skoða leikmenn hér á landi alveg eins og erlendis. Landsliðsþjálfararnir hafa verið að velja leikmenn sem leika hér á landi að undanförnu, til dæmis Auðun Helgason og Tryggva Guðmundsson. Það er gott fyrir íslenska knattspyrnu að leikmenn finni fyrir því að það sé með þeim fylgst. Vonandi komast fleiri leikmenn FH í landsliðið, því það yrði sanngjörn viðurkenning á því starfi sem við höfum verið að vinna að undanförnu." Næstu verkefni landsliðsins eru leikir gegn landsliðum Búlgaríu og Króatíu, en þeir fara fram þriðja og sjötta september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×