Sport

Mikill klassi yfir Atla

Klæðnaður Atla Eðvaldssonar, nýráðins þjálfara Þróttar í Landsbankadeild karla, vakti mikla kátínu á meðal Köttaranna, stuðningsmannahóps Þróttar, í leiknum gegn ÍA í fyrradag. Minnti Atli um margt á Jose Mourinho hjá Chelsea, klæddur í dökkan og síðan frakka yfir jakkafötin og er ekki hægt að segja annað en að það hafi verið eilítið meiri klassi yfir Atla en hjá kollega hans hjá ÍA, Ólafi Þórðarsyni, sem var eins og venjulega klæddur í æfingagalla Skagaliðsins. "Við erum gríðarlega ánægðir með Atla. Hann er einstaklega flottur," segir Halldór Gylfason, leikari og ein helsta driffjöður þeirra Köttara uppi í stúku. Undir dyggri stjórn Halldórs stærstan hluta leiksins sungu Köttararnir í kór: "Óli í jakkafötin, Óli í jakkafötin" en áttu þeir ekki eftir að eiga erindi sem erfiði. "Við vonuðumst eftir að sjá útlitsbreytingu á Óla í hálfleik en hann fór ekki í jakkafötin eins og við báðum hann um. En það er mikill klassi yfir Atla," segir Halldór og bætir við að það sé mun meiri stíll yfir honum heldur en Ásgeiri Elíassyni, fyrrverandi þjálfara liðsins. Halldór segir ýmislegt til í samanburðinum við Mourinho en að Atli minni sig þó frekar á annan frægan kappa. "Mér finnst eins og við séum komnir með Klaus Augenthaler Íslands. Atli er fágaður og yfirvegaður á hliðarlínunni." Persónulega segir Halldór að hvorki jakkafötin né æfingagallinn eigi við sig. "Ef ég væri þjálfari væri ég inni á vellinum. Spilandi þjálfari," segir Halldór, sem óttast ekki örlög Þróttara í ár. "Ég er alveg sannfærður um að Atli nái að halda okkur uppi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×