Viðskipti erlent

Leyndi eignatengslum

Þegar stjórn SÍF ákvað að selja Iceland Seafood Corporation í Bandaríkjunum til Sjóvíkur í október á síðasta ári voru stjórnarmenn ekki upplýstir af stjórnarformanninum, Ólafi Ólafssyni, um að hann væri stór hluthafi í Sjóvík. Stjórnarmaður segir það ekki hafa skipt höfuðmáli því salan hafi verið hagstæð fyrir SÍF. Samkvæmt fundargerð SÍF frá 19. október bað Ólafur þá Jón Kristjánsson og Guðmund Hjaltason, sem þá voru stjórnarmenn í Sjóvík, að yfirgefa fundinn við afgreiðslu málsins. Sjálfur kynnti hann hugmyndina um sölu á Iceland Seafood til Sjóvíkur. Það var samþykkt en í framhaldinu óskaði Ólafur eftir því að taka ekki þátt í lokafrágangi samningsins þar sem hann tengdist Sund fjárhagslega. Fjárfestingafélagið Sund, sem var stærsti eigandinn í Sjóvík, var þá meðal annars stór hluthafi í Keri ásamt Ólafi. Ekkert var minnst á tengsl hans við Sjóvík í fundargerð og stjórnarmenn hafa staðfest að hafa ekki vitað af þessum tengslum Ólafs. Ólafur átti hlut í Sjóvík í gegnum félagið Serafin Shipping. Hann hefur ekki viljað svara spurningum um þessi eignatengsl sín. Samstarfsmaður Ólafs, sem þekkir vel til málsins, hefur ítrekað við blaðamann að Serafin Shipping hefði ekki verið í eigu Ólafs. Markaðurinn hefur hins vegar undir höndum gögn sem sýna að Ólafur var "beneficial owner" eða undirliggjandi eigandi Serafin Shipping og félagið skráð á bresku Jómfrúreyjunum. Við sameiningu SH og Sjóvíkur á þessu ári eignaðist Serafin Shipping yfir sex prósent í sameinuðu félagi. Þrátt fyrir að rjúfa fimm prósent eignarmúrinn bárust Kauphöllinni ekki lögbundnar upplýsingar. Í staðinn var hlutnum skipt strax á milli tveggja félaga, Fordace Limited og Deeks Associates. Fjármálaeftirlitið er nú með það mál til skoðunar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×