Fastir pennar

London City Airport

Það er mikið búið að nefna London City Airport í umræðunni um flugvallarmálið að undanförnu. Maður sér fyrir sér flugvélarnar þar sem þær lenda á Piccadilly og farþegana sem streyma út - ótrúlega ánægðir að geta flogið svona beint inn í miðborgina. Staðreyndirnar um legu þessa flugvallar eru auðvitað allt aðrar en lesa má í aðsendum greinum í Morgunblaðinu. Hann er staðsettur langt fyrir austan miðju Lundúna, fyrir austan hið dapurlega viðskiptahverfi sem var reist á niðurníddum hafnarsvæðum í kringum Canary Wharf í góðærinu á seinni hluta níunda áratugarins. Frá flugvellinum tekur að minnsta kosti hálftíma að fara með leigubíl í West End sem telja má hina eiginlegu miðju borgarinnar - þetta er sá tími sem er gefinn upp á netinu, þeir sem þekkja umferðina í Lundúnum vita að hann er sjálfsagt talsvert lengri. Flugvöllurinn er semsagt einar tíu mílur frá miðborginni - það þýðir að á mælikvarða suð-vesturlands á Íslandi væri hann miðja vegu milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Til að komast þaðan með lest þarf fyrst að taka strætó drjúga leið á lestarstöðina Canning Town - en þaðan tekur við um þrjátíu mínútna lestarferð í bæinn. Þetta er semsagt miðborgarflugvöllurinn sem svo mikið er talað um. Fyrir þá sem eru staðkunnugir sést miðlæg lega hans ágætlega á kortinu hér að ofan. --- --- --- Menn hafa verið býsna fljótir að skamma ríkisstjórnina fyrir litla og lélega neyðaraðstoð við bágstadda á flóðasvæðunum við Indlandshaf. En var ekki allt í lagi að tékka á því fyrst hver þörfin væri? Stundum þarf kannski ekki að rjúka upp til handa og fóta - sama hversu ásetningurinn er góður. Flóðin breyta því heldur ekki að neyðarástand ríkir áfram í mörgum ríkjum Afríku - þar láta þúsundir lífið hvern dag við ömurlegar aðstæður. En sjónir okkar hafa beinst í aðra átt. Það þarf að meta hvar neyðin er mest og hvar hjálpin kemur að mestum notum. Oft er ágætt að láta sérfræðinga um það, en ana ekki áfram í einhverri tilfinningasemi augnabliksins. Frægt var þegar haldir voru miklir popptónleikar í Bandaríkjunum og Bretlandi sumarið 1985. Ótrúlegir fjármunir söfnuðust í Band-Aid átakinu sem Bob Geldorf stóð fyrir. Hin hryggilega staðreynd er að mest af þeim fór í súginn. Neyðaraðstoðin eyðilagðist í skemmum í Sómalíu eða á trukkum sem félagsskapurinn keypti dýrum dómum en komust aldrei leiðar sinnar. Þessi saga hefur ekki verið almennilega sögð - kannski af því það samræmdist ekki fjölmiðlaveruleikanum um hina fórnfúsu poppara. Í Bretlandi hefur Tony Blair orðið fyrir skömmum vegna þess að hann hélt áfram að vera í fríi meðan hörmungarnar gengu yfir. Peter Preston, dálkahöfundur í The Guardian, ritar pistil í dag þar sem hann segir að þegar svona dynji yfir sé ekki þörf á stjórnmálamönnum heldur skriffinnum - "administrators". Nú reyni á að þeir geri gagn. Blair geti því flatmagað áfram í sólinni við Rauðahaf ef honum sýnist. --- --- --- Menn gera skiljanlega mikið úr þessum hörmungum - mestu hamfarir alllra tíma mátti heyra í fjölmiðlunum milli jóla og nýárs. Af forvitni fór ég á vefinn og fann þennan lista um ógurlegustu náttúruhamfarir allra tíma. Ég veit ekki hversu nákvæmur hann er. Þarna má til dæmis sjá flóð í Kína 1931. Ég veit ekki betur en að þar hafi afi minn verið við hjálparstörf; hann skrifaði seinna að þarna hafi hann séð mannlega neyð mesta - og að sú tilfinning hafi ásótt sig æ síðan að hjálpin hefði verið ófullkomin og hann hefði getað gert betur. --- --- --- Það eru dálítið harkaleg viðbrögð við nýársræðum Halldórs Ásgrímssonar og Karls Sigurbjörnssonar um fjölskyldugildin að líta svo á að þeir vilji reka konurnar aftur inn á heimilin - að umhyggja þeirra fyrir fjölskyldunni sé í rauninni karlremba. En sjálfsagt hafa þeir báðir átt góðar mæður sem voru heima þegar þörf var - gáfu þeim heitan mat í hádeginu og eitthvað gott með kaffinu. Ég held meira að segja að biskupsmóðirin hafi alla tíð verið í þjóðbúningi. Ég get samt ómögulega séð að forsætisráðherrann og biskupinn séu að gera út á samviskubit kvenna sem geta ekki boðið börnum sínum slíkar trakteringar. Mér finnst allavega dálítil eftirsjá í stórfjölskyldunni - hvað sem líður kvenfrelsi, nútímalegum lifnaðarháttum og fjölmenningu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×