Viðskipti innlent

KB stærri en LÍ og Íslandsbanki

KB banki er orðinn stærri en Landsbankinn og Íslandsbanki til samans eftir kaup á dönskum fjárfestingarbanka í gær og er orðinn nánast jafn stór og stærsti banki Finnlands. Til þess að átta sig á umfangi kaupanna upp á 84 milljarða króna þá er það hærri upphæð en andvirði allra sjávarútvegsfyrirtækja og fisksölufyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Reyndar er kaupverðið heldur hærra en 84 milljarðar því seljendur danska bankans héldu eftir 26 milljarða arði sem raunhæft er að bæta við kaupverðið. Dagblaðið Financial Times fjallar í dag um kaupin. Í grein blaðsins segir að kaupin hafi komið á óvart í Skandinavíu og að búist hafi verið við að sænskur banki, til að mynda Nordea eða SEB, myndi kaupa FIH. Hermt er að enginn hafi heyrt talað um KB í þessu samhengi fyrr en gengið var frá kaupunum í gær. Haft er eftir Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni KB, að bankinn hyggi á frekari fjárfestingar á Norðurlöndum og þurfi að stækka í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Financial Times segir raddir uppi sem efist um að KB geti fjármagnað kaupin en Sigurður vísar því á bug. Engra efasemda gætti hér á landi og hækkaði gengi bréfa í bankanum um 12,5% við fréttina. Það hafðí þau áhrif að úrvalsvísitalan hækkaði um 3,6 stig og hefur aldrei verið hærri.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×