Fastir pennar

Hermennska og sadismi

Hermennska hefur einn kost - að losa skítapakk af götunum. Það fer þá inn á þartilgerð svæði og stundar áhugamál sín án þess að ónáða aðra - svona þangað til kemur stríð. Í Bretlandi hefur orðið mikill hávaði vegna misbeitingar á ungum hermannsefnum í æfingabúðunum Deepcut í Surrey. Sadisminn þar kemur svosem ekkert á óvart. Þetta er sami andinn og ríkti til dæmis í Abu Ghraib. Þarna stunduðu menn kynferðislegt ofbeldi, skipulagða niðurlægingu á ungu fólki og jafnvel nauðganir - má lesa um það í The Guardian í dag. Manni hefur stundum dottið í hug að íslenskur her gæti losað okkur við menn sem eru óæskilegir í borgaralegu lífi. Þannig eru löggumennirnir tveir sem voru fyrir dómi síðastliðinn vetur, ákærðir fyrir fautaskap, komnir til Íraks. Þar eru þeir málaliðar, allt voða mikið leyndó - þó í frétt Stöðvar 2 hafi það verið kallað friðargæsla. Maður vorkennir hins vegar Írökum. Greinilegt að rakkarapakk heimsins sogast að stað þar sem ástandið er svona - þar sem vopnin og valdið tala. --- --- --- Í Fréttablaðinu í dag er frétt sem lætur lítið yfir sér. Segir þar að annað bindið í ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hómstein Gissurarson komi ekki út fyrir þessi jól. Heimildarmaðurinn er Björn Þorsteinsson hjá Almenna bókafélaginu sem gaf út fyrra bindið. Ekki er alveg víst að þetta sé sannleikanum samkvæmt - heimildir herma nefnilega að bókin komi út, en ekki hjá AB. Það er Hannes sjálfur - eða vinir hans - sem hyggist gefa bókina út. Hannes mun hafa náð að skila inn handriti, en þeir hjá Eddu, móðurfélagi AB, vildu láta sérstaklega útnefndan bokmenntafræðing fara yfir það áður en til útgáfu kæmi. Töldu það vissara eftir deilurnar um fyrra bindið. En með því móti vinnst ekki tími til að koma bókinni út fyrir jólin. Hannes situr hins vegar við sinn keip - vill ekki bíða. Þannig að allar líkur eru á að ritið komi út og geta áhugammenn um HKL þá lagst í mikil samanburðarfræði. Nema Hannes verði bara fordæmdur ólesinn - það er einfaldara. --- --- --- Ég er að velta því fyrir mér í sambandi við Írak hvernig stuðningi íslenskra stjórnvalda við Vietnamstríðið var háttað. Auðvitað þarf ekki að efast um að viðreisnarstjórnin hérna studdi það af heilu hjarta, en það voru náttúrlega engir listar yfir þá sem vildu vera með - menn skiptust einfaldlega í lið í kalda stríðinu. Þegar ég var lítill héldu menn annað hvort með Víetkong og Norður-Víetnam eða Bandaríkjunum og Suður-Víetnam. Hó frænda eða Johnson, síðar Nixon. En svo fór að verða mikil hugarfarsbreyting upp úr 1967 - á endanum treysti sér varla neinn til að mæla stríðinu bót. Ég man ekki betur en að Styrmir Gunnarsson hafi rakið hvernig þetta gerðist. Hann fór til Bandaríkjanna stuttu fyrir 1970 og fann hvernig vindarnir höfðu snúist. Það var einfaldlega ekki hægt að hanga fastur í blindum stuðningi við hernaðinn. Tónninn í Morgunblaðinu fór líka að breytast. Spurningin er hvernig fer í Írak. Umræðurnar í þinginu í gær voru fjörugar, en þær verða kannski ekki taldar að sama skapi vitsmunalegar. Það er ekki sannfærandi málflutningur að segja að þeir sem vilji láta taka Ísland af lista staðfastra þjóða séu á móti uppbyggingu í Írak. Frakkar, Þjóðverjar og Rússar voru á móti innrásinni í Írak - samt eru þessar þjóðir að gefa Írökum upp stóran hluta af erlendum skuldum ríkisins. Atburðirnir í Falluja verða líka seint taldir til uppbyggingarstarfs - stríðinu er langt í frá lokið. --- --- --- Hér er afskaplega forvitnilegur vefur sem áhugamaður um Norður-Kóreu benti mér á, opinber heimasíða alþýðulýðveldisins Kóreu með myndum af hinum frábæru leiðtogum Kim Il Sung og Kim Jong Il. Áhugamaðurinn tjáði mér í tölvupósti að hér væri starfandi grein alþjóðlegra vináttusamtaka við Norður Kóreu, KFA kallaði hann það. Einu sinni voru hér menn sem starfræktu Albaníuvinafélag og litu mjög upp til Envers Hoxa. Fóru í heimsókn til Albaníu og fengu mynd af sér á forsíðu Raddar alþýðunnar í Tirana. Ég veit samt ekki hvort þeim voru sýnd sprengjubyrgi, en það er víst það eina sem var nóg af eftir 40 ára stjórn Hoxa - allt landið var útbíað í sprengjubyrgjum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×