Erlent

Ákærðir fyrir að þiggja mútur

Starfsmenn sænsku áfengiseinkasölunnar sem þegið hafa mútur að andvirði allt að einni milljón íslenskra króna frá heildsölum eiga nú yfir höfði sér ákæru. Alls er um að ræða 77 starfsmenn sem hver um sig hefur þegið mútur að andvirði rúmra 30 þúsund íslenskra króna eða meira. Ljóst þykir að 21 starfsmaður til viðbótar hefur þegið mútur en ákveðið var að kæra ekki þá sem þáðu innan við þrjú þúsund krónur sænskar. Starfsmennirnir eru sakaðir um að hafa þegið greiðslu fyrir að kaupa vörur frá ákveðnum heildsölum og stilla þeim upp á áberandi stað. Fimmtán starfsmenn þriggja áfengisheildsala eiga einnig ákæru yfir höfði sér vegna málsins. Sænska áfengiseinkasalan, sem er stærsti einstaki áfengiskaupandi heims, er þegar byrjuð að ráða inn og þjálfa nýja starfsmenn í stað þeirra sem verða ákærðir. Ákveðið hefur verið að bíða ekki með uppsagnir þar til dómstólar hafa kveðið upp dóm heldur verða starfsmennirnir sem um ræðir reknir eða þeim gefinn kostur á að segja upp störfum. Einn verjandi sakborninga hefur sagt að fólkið hafi ekki gert sig sekt um neitt það sem ekki hafi viðgengist um langt árabil.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×