Erlent

Réttað yfir stjórnvöldum

Réttarhöld eru hafin vegna lögsóknar níu grunaðra hryðjuverkamanna á hendur breskum stjórnvöldum. Mennirnir voru hnepptir í varðhald án undangengins dóms en krefjast þess nú að verða leystir úr haldi þar sem fangelsisvist þeirra brjóti gegn grundvallaratriðum lýðræðis og réttarreglu. Alls hafa sautján meintir hryðjuverkamenn verið hnepptir í varðhald án dómsúrskurðar og hafa þeir sem lengst hafa dvalið í fangelsi mátt dúsa þar í þrjú ár. Hinum meintu hryðjuverkamönnum hefur hvorki verið sagt fyrir hvað þeir hafi verið fangelsaðir né hvaða sannanir stjórnvöld hafi gegn þeim. Stjórnvöld breyttu lögum í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september svo hægt væri að fangelsa þá sem lögreglu þætti rík ástæða til að ætla að væru hryðjuverkamenn þó ekki væri hægt að sanna á þá sakir. "Við teljum það óásættanlegt í lýðræðisríki að setja fólk, sem hugsanlega er saklaust, í fangelsi án réttarhalda og án þess að nokkur viti hvort, eða hvenær, fólkið verður leyst úr haldi," sagði Ben Emmerson, lögmaður sjö þeirra sem hafa höfðað mál á hendur stjórnvöldum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×