Viðskipti innlent

Nýr kjarasamningur undirritaður hjá Alcoa Fjarðaáli

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá undirritun nýs kjarasamnings milli AFLs starfsgreinafélags, Rafiðnaðarsambands Íslands og Alcoa Fjarðaáls sem fram fór í matsal Fjarðaáls.
Frá undirritun nýs kjarasamnings milli AFLs starfsgreinafélags, Rafiðnaðarsambands Íslands og Alcoa Fjarðaáls sem fram fór í matsal Fjarðaáls. Mynd/Kom
Nýr kjarasamningur til fimm ára var undirritaður hjá Alcoa Fjarðaáli milli AFLs starfsgreinafélags, Rafiðnaðarsambands Íslands og Alcoa Fjarðaáls en samningurinn gildir frá 1. mars 2015.

Fram kemur í tilkynningu að helstu breytingar í nýjum samningi felast í breyttu vinnutímafyrirkomulagi en þannig mun vinnustundum vaktavinnufólks á mánuði fækka, tekinn verður upp fæðingarstyrkur til starfsmanna í fæðingar- og foreldraorlofi og grunnlaun munu hækka.

Einnig er í samningnum kveðið á um viðbætur og hækkanir á launatöflum, árlega hækkun desember- og orlofsuppbóta á samningstímanum og samið er um eingreiðslu til starfsmanna.

Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls kveðst í tilkynningu ánægður með að búið sé að landa nýjum kjarasamningi og telur að hann feli í sér mikla kjarabót fyrir starfsfólk Fjarðaáls. Hann segir að þótt samningaferlið hafi verið langt hafi það engu að síður gengið vel og gott samstarf hafi verið milli aðila.

Formleg kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn fer fram í Fjarðaáli eftir verslunarmannahelgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×