Innlent

Lögreglumenn með lægri laun en vinnuskólaleiðbeinendur

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Snorri Magnússon
Snorri Magnússon
„Ég held að það sé vandfundinn sá Íslendingur sem finnst þetta vera sambærileg störf," segir Snorri Magnússon, formaður landssambands lögreglumanna. Hann bendir á það í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið í dag að lægstu grunnlaun lögreglumanna séu 138.513 krónur, eða rúmum tíu þúsund krónum lægri en laun þeirra leiðbeinenda hjá vinnuskólanum sem lögðu niður vinnu á dögunum til að mótmæla kjörum sínum.

Laun nýútskrifaðra lögreglumanna frá lögregluskóla ríkisins í fullri vaktavinnu eru hinsvegar 181.202 krónur. Rúmum þrjú þúsund krónum meira en leiðbeinendurnir hjá ÍTR sem starfsmenn vinnuskólans báru sig saman við.

Snorri segir mikla starfsmannaveltu hafa verið hjá lögreglunni, þar sem fólk flýr slæm kjör og fjölskyldufjandsamleg vinnuskilyrði eftir nokkurra ára starf. Hann segir þann starfsmannaflótta kosta ríkið háar fjárhæðir. „Varlega áætlað kostar á þriðju eða fjórðu milljón að mennta lögreglumann," segir Snorri. „Það hlýtur að segja sig sjálft ef þú ert að fjárfesta í svona þá hlýtur þú að vilja halda í þá fjárfestingu eins og þú getur."

Lögreglumenn semja um launakjör sín í haust, og segir Snorri ljóst að launin þurfi að hækka verulega til að menn séu sáttir. „Við höfum engar tölur nefnt í þessu, en þetta eru ekki einhverjir þúsundkallar sem duga til," segir Snorri. „Við heyrum það á okkar félagsmönnum að menn hugsi sér til hreyfings ef ekki verður veruleg breyting kjörunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×