Eldfjall

Vísir frumsýnir hér nýtt sýnishorn úr Eldfjalli, nýrri íslenskri kvikmynd eftir Rúnar Rúnarsson. Sýningar á myndinni hefjast 30. september.

Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá fjölskyldunni og heimilinu, sem þarf að takast á við nýtt hlutverk í lífinu þegar eiginkona hans veikist. Með aðalhlutverk fara Theodór Júlíusson og Margrét Helga Jóhannsdóttir. Meðal annarra leikara í lykilhlutverkum eru Elma Lísa Gunnarsdóttir og Þorsteinn Bachmann.

Leikstjóri myndarinnar, Rúnar Rúnarsson, þykir einhver magnaðasti stuttmyndaleikstjóri heims um þessar mundir og muna margir Íslendingar eftir því þegar myndin Síðasti bærinn var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2006. Alls hefur hann unnið yfir 100 verðlaun fyrir stuttmyndir sínar á liðnum árum. Eldfjall er fyrsta mynd hans í fullri lengd.

Eldfjall hefur keppt til verðlauna á kvikmyndahátíðunum í Cannes og Toronto, og í München, Transylvaníu, Karlovy Vary, Haugasundi, Kazakstan, Chicago og Hamptons, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess er hún í forvali til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, og er fyrsta íslenska myndin til að keppa um aðalverðlaunin á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF.

6502
02:08

Næst í spilun: Íslenskar kvikmyndir

Vinsælt í flokknum Íslenskar kvikmyndir

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.