Skipulagði árásina í heilan mánuð
Fjórtán ára gamall drengur, sem skaut níu til bana í grunnskóla í miðborg Belgrad í Serbíu í morgun, skipulagði árásina í heilan mánuð að sögn lögreglunnar í Belgrad. Drengurinn hafi verið með lista af nemendum sem hann vildi beina spjótum sínum að og búinn að ákveða hvaða skólastofum hann myndi byrja á. Hann skaut kennara sinn, samnemendur og öryggisverði í skólanum. Níu létu lífið í árásinni, þar af átta nemendur og einn öryggisvörður. Sjö voru flutt á sjúkrahús. Drengurinn var handtekinn á vettvangi.