Betri helmingurinn með Ása - Siggi Sigurjóns og Lísa

Í þessum þætti átti ég einlægt og virkilega gott spjall við einn af okkar ástsælustu leikurum, Sigga Sigurjóns, og hans betri helming til hvorki meira né minna en 45 ára, Lísu Harðardóttur. Siggi og Lísa eru Hafnfirðingar í húð og hár en hafa þau bæði búið þar frá blautu barnsbeini og búa þau þar enn þann dag í dag. Þá hefur Lísa einmitt tekið stóran þátt í uppeldi Hafnfirðinga þar sem hún hefur starfað sem leikskólakennari á sama leikskólanum í heil 25 ár. Leiðir þeirra lágu saman í Hjálparsveit Skáta árið 1978 en þá var Siggi nýútskrifaður úr leiklistarskólanum og rétt svo farinn að stíga sín fyrstu skref á þeim vettvangi og segja þau frá því í þættinum þegar þau tóku fyrsta dansinn á þorrablótinu hjá hjálparsveitinni en Siggi segist hafa verið ansi fljótur að næla sér í hana þar sem hún fór frekar hægt yfir verandi í gifsi á þeim tíma. Upp úr því hófst þeirra ævintýri saman með tilheyrandi bíóferðum, bónorði í Hyde Park og allt þar á milli og hafa þau verið gift í 37 ár og eiga afar stóra og samrýnda fjölskyldu. Í þættinum fórum við um víðan völl og ræddum við meðal annars leiklistarferilinn og fjölskyldulífið síðustu 45 árin, ferðalög & veiðimennsku, Spaugstofu-áratugina, gagnrýnisraddir og dýrmætu vináttuna sem fylgdi í kjölfarið, ömmu & afa hlutverkið, skyndi-brúðkaupið mikla, ásamt fullt af skemmtilegum sögum þar á meðal frá því þegar stolt Sigga varð sært í veiðiferð í upphafi sambandsins.

2609
01:52

Vinsælt í flokknum Betri helmingurinn með Ása