Maðurinn sem Sigmundur Davíð þykist vera blandast í Netflix súpu

Kvikmyndirnar The Laundromat og Zombieland Double Tap virðast á yfirborðinu ekki eiga margt sameiginlegt, en krakkarnir í Stjörnubíói fundu þó snertiflöt á þeim. Það mun vera hinn sundurlausi strúktúr sem tengir þær. The Laundrotmat byggir á bók Jake Bernstein um Panamaskjölin, en þeir Antonio Banderas og Gary Oldman fara með hlutverk hinna dularfullu Mossack og Fonseca. Maðurinn sem Sigmundur Davíð þykist vera (samkvæmt Jóni Gnarr), Sigurður Ingi Jóhannsson, blandast svo óviljugur í þessa súpu-með-öllu sem Steven Soderbergh framreiðir í samstarfi við Netflix. Zombieland Double Tap, framhaldsmyndin sem enginn bað um, er svo önnur súpa sem áhorfendum kvikmyndahúsanna er nú boðið upp á. Það er sama uppskrift og fyrir tíu árum sem þar er lögð á borð og því aðeins fyrir allra hörðustu Zombielandaðdáendur (séu þeir einhverjir) að neyta. Gestir þáttarins eru blaðamaðurinn Tómas Valgeirsson og leikarinn Bragi Árnason. Heiðar Sumarliðason matreiðir Stjörnubíósúpuna að vanda. Te og kaffi býður hlustendum upp á Stjörnubíó alla sunnudaga klukkan 12:00 á X977.

658
16:24

Vinsælt í flokknum Stjörnubíó