Neytendur

Costco lækkaði í morgun og bætti svo í

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Athygli vakti að verðið breyttist í tvígang.
Athygli vakti að verðið breyttist í tvígang.

Eldsneytisverð hjá Costco lækkaði í morgun í takti við innleiðingu kílómetragjalds. Athygli vekur að verðið lækkaði í tvígang og leit um tíma út fyrir að munurinn á milli Costco og annarra söluaðila yrði lítill sem enginn. Nú kostar lítrinn 171,1 krónu á bensíni og 193,3 krónur á dísel hjá Costco. Lækkunin á bensíni í prósentutölum er ívið meiri en hjá samkeppnisaðilum.

Líkt og fram hefur komið hefur eldsneytisgjald lækkað um í kringum þrjátíu prósent á nýju ári eftir að ný lög um kílómetragjöld tóku gildi. Þannig fór verð á bensíni hjá Orkunni á Laugavegi sem dæmi úr 308,5 krónum og í 212 krónur. Verð á dísillítranum úr 314,2 krónum og í 226,9 krónur. Er það um 31 prósenta lækkun og um 28 prósenta lækkun.

Costco hefur um árabil boðið upp á lægsta verðið á eldsneyti hér á landi og biðu margir spenntir í morgun á fyrsta opnunardegi verslunarinnar eftir nýjum verðum í ljósi innleiðingar kílómetragjalda. Bensín hjá Costco kostaði fyrir breytingar 267,7 krónur og dísill 280,7 krónur. Neytendur í Facebook hópnum Costco- Gleði hafa fylgst vel með.

Klukkan níu í morgun birtist þar mynd af nýju eldsneytisverði hjá Costco, bensín á 182,1 krónu og dísel á 204,3 krónur. Vöktu þau verð mikla athygli enda hefði þá einungis munað einni krónu á milli bensíns hjá Costco og bensíns hjá ódýrustu stöðvum samkeppnisaðilanna.

„Miðað við mikla lækkun á heimsmarkaðsverði er Costco að auka álagninguna,“ skrifaði einn neytenda í hópnum. 35 mínútum síðar birtist hinsvegar inni á hópnum ný mynd af eldsneytisverðum hjá heildsölunni og er verðið 171,1 króna á bensínlítrann en 193,3 krónur á dísellítrann.

Munar því tólf krónum á lítranum hjá Costco og lægstu verðum hjá samkeppnisaðilum á bensíni og ellefu krónum á dísel. Lækkunin nemur 36 prósentum á bensíni, sem er ívið meira en hjá samkeppnisaðilum. Lækkun á dísel nemur 31 prósenti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×