Samstarf

Ný þjónustu- og aðkomu­bygging við Varm­á boðin út

Mosfellsbær
Mosfellsbær stendur að forvali vegna uppbyggingar og reksturs nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar við íþróttasvæðið að Varmá. Regína Ástvaldsdóttir er bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Einar Ingi Hrafnsson er framkvæmdastjóri Aftureldingar.
Mosfellsbær stendur að forvali vegna uppbyggingar og reksturs nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar við íþróttasvæðið að Varmá. Regína Ástvaldsdóttir er bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Einar Ingi Hrafnsson er framkvæmdastjóri Aftureldingar. Mynd/Hulda Margrét.

Mosfellsbær stendur nú að forvali vegna uppbyggingar og reksturs nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar við íþróttasvæðið að Varmá. Leitað er eftir áhugasömum aðilum til þátttöku í lokuðum samkeppnisviðræðum þar sem valinn aðili mun taka að sér að hanna, byggja, eiga og reka hina nýju þjónustu- og aðkomubyggingu að Varmá.

Ákveðið hefur verið að fara leið einkaframkvæmdar en með því verður Mosfellsbær kaupandi þjónustunnar, en ekki eigandi eða rekstraraðili byggingarinnar. Markmiðið er að flýta uppbyggingu og nýta þekkingu og rekstrarhæfni einkaaðila.

Mikilvægt skref í þróun íþróttasvæðisins

Á íþróttasvæðinu að Varmá er nú þegar fjölbreytt aðstaða fyrir íþróttir og hreyfingu. Varmársvæðið er hjarta Mosfellsbæjar en á hefðbundum virkum degi heimsækja íþróttamiðstöðina að Varmá um 1.700 einstaklingar og enn fleiri heimsækja Varmársvæðið.

Hér má sjá hvar ný þjón­ustu- og að­komu­bygg­ing mun rísa við íþróttamið­stöð­ina að Varmá.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu undanfarin ár; endurgerð aðalvallar með gervigrasi og nútímalegri flóðlýsingu, nýtt gervigras var sett á eldri völlinn og nýr frjálsíþróttavöllur er langt kominn. Þá er verið að undirbúa nýja félagsaðstöðu fyrir Aftureldingu sem verður tekin í notkun árið 2026.

Ný þjónustu- og aðkomubygging verður miðlægur inngangur og þjónustukjarni fyrir starfsemina á svæðinu auk þess að hýsa margvíslega stoðþjónustu.

„Þetta verkefni er mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu íþróttasvæðisins að Varmá,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Ný þjónustu- og aðkomubygging mun bæta alla aðkomu að húsinu, gera okkur kleift að fjölga klefum auk þess að hafa rými fyrir fjölbreytta þjónustu og bæta aðstöðu fyrir starfsfólk og þjálfara. Nýja þjónustu- og aðkomubyggingin mun vonandi bæta upplifun gesta til muna, og er mikilvægur liður í því að gera Varmá að enn öflugri miðpunkti í Mosfellsbæ fyrir hreyfingu, heilsu og félagslega samveru.

Hér má sjá aðra mynd sem sýnir hvernig Varmársvæðið gæti litið út með nýjum gervigrasvelli, frjálsíþróttasvæði og stúku ásamt 3.000 m² þjónustu- og aðkomubyggingu.

Aðgangur að gögnum og skilafrestur

Forvalsgögn eru aðgengileg öllum, án endurgjalds, á útboðsvef VSÓ Ráðgjafar frá og með þriðjudeginum 9. desember 2025 kl. 14.

Umsóknum skal skila rafrænt eigi síðar en föstudaginn 16. janúar kl. 14.

Þrívíddarmyndirnar byggja ekki á raunverulegri hönnun svæðisins heldur eru þær einungis settar fram í hugmyndaskyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×