Albert kom inn af bekknum er Genoa tapaði gegn tíu Róm­verjum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Romelu Lukaku skoraði eina mark leiksins.
Romelu Lukaku skoraði eina mark leiksins. Paolo Bruno/Getty Images

Albert Guðmundsson og félagar hans í Genoa máttu þola 1-0 tap er liðið heimsótti Roma í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Albert, sem hefur verið með betri leikmönnum deildarinnar á tímabilinu, hóf leik á varamannabekk Genoa.

Enn var markalaust að loknum fyrri hálfleik og ekkert hafði verið skorað þegar Albert kom inn af bekknum á 67. mínútu. Fimm mínútum síðar dró þó til tíðinda þegar Leandro Paredes nældi sér í tvö gul spjöld á sömu mínútunni og þar með rautt.

Heimamenn í Roma þurftu því að leika manni færri það sem eftir lifði leiks, en þrátt fyrir það voru það Rómverjar sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Þar var á ferðinni Romelu Lukaku á 79. mínútu eftir stoðsendingu frá Stephan El Shaarawy.

Alberti og félögum tókst ekki að jafna metin þrátt fyrir liðsmuninn og niðurstaðan varð 1-0 sigur Roma, sem nú er með 63 stig í sjötta sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina. Genoa situr hins vegar í ellefta sæti með 46 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira