Sport

Helgi Áss nokkuð ó­vænt Ís­lands­meistari í annað sinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Helgi Áss í skák kvöldsins gegn Guðmundi sem tryggði þeim fyrrnefnda Íslandsmeistaratitilinn.
Helgi Áss í skák kvöldsins gegn Guðmundi sem tryggði þeim fyrrnefnda Íslandsmeistaratitilinn. Mynd/Skáksambandið

Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í skák. Það gerði hann þó einni umferð væri ólokið á mótinu.

Helgi gerði jafntefli við Guðmund Kjartansson í tíundu og næstsíðustu umferð mótsins. Jafnteflið dugði Helga því að Vignir Vatnar Stefánsson, hans helsti keppinautur um titilinn, komst lítt áleiðis gegn Hannesi Hlífari Stefánssyni á sama tíma. 

Þar var jafntefli einnig niðurstaðan og Helgi með eins og hálfs vinninga forskot þegar ein umferð var eftir. Helgi með 8½ vinning af tíu mögulegum en Vignir hefur sjö og því ljóst að það forskot yrði ekki unnið upp í lokaumferðinni.

Þetta er annar Íslandsmeistaratitill Helga. Sá fyrri vannst á Hlíðarenda árið 2018.

Samkvæmt tilkynningu Skáksambandsins er sigur Helga á mótinu nokkuð óvæntur. Það er af þeim sökum að hann var aðeins fimmti af tólf í stigaröð keppenda fyrir mót og þess utan ekki atvinnumaður í skák.

Með sigrinum tryggir Helgi sér sæti í landsliði Íslands á næsta Ólympíuskákmóti sem fram fer í Búdapest í september næst komandi.

Helgi Áss og Vignir Vatnar munu þó leika lokaumferðina. Sú fer fram á morgun og hefst keppni klukkan 13:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×