Neytendur

Laumuðu fötunum með barna­bíl­stólunum og fá lægri bætur

Atli Ísleifsson skrifar
Þar sem ferðast var með ung börn fylgir frí farangursheimild fyrir barnabílstóla og kerrur. Fjölskyldan kom fatnaðinum fyrir í poka með einum barnabílstólnum. 
Þar sem ferðast var með ung börn fylgir frí farangursheimild fyrir barnabílstóla og kerrur. Fjölskyldan kom fatnaðinum fyrir í poka með einum barnabílstólnum.  Getty

Fjölskylda sem ferðaðist með flugi til Stokkhólms í Svíþjóð síðasta sumar fær um 14 þúsund krónur í bætur eftir að farangur þeirra skilaði sér seint á áfangastað. Fjölskyldan fór fram á mun hærri bætur vegna málsins, um 80 þúsund krónur, en þar sem fjölskyldan fór ekki að skilmálum með því að pakka fatnaði hennar ofan í poka með barnabílstólum urðu bæturnar mun lægri en farið var fram á.

Þetta kemur fram í nýbirtum úrskurði kærunefndar vöru- og þjónsutukaupa. Þar kemur fram að það hafi verið par, sem hafi ferðast með þremur ungum börnum sínum, sem kvartaði til nefndarinnar eftir að innritaður „sérfarangur“ hafði orðið eftir á Íslandi og ekki skilað sér til Svíþjóðar fyrr en fimm dögum síðar.

Parið fór fram á að flugfélagið myndi greiða sér um 80 þúsund krónur vegna fatakaupa, þar sem fatnaður fjölskyldunnar hafi verið í sérfarangrinum sem hafði orðið eftir á Íslandi. Sömuleiðis hafi verið farið fram á um 10 þúsund króna bætur vegna óþæginda við að sækja farangurinn þar sem meðal annars hafi þurft að keyra í fjóra tíma til sækja hann.

Fatnaðurinn í pokanum með barnabílstól

Parið sagði að í pokanum með barnabílstólnum hafi verið ungbarnaföt, sundföt, rakvél og raksápa, tvennar buxur og bolir, fjórar peysur og útiföt á fjölskylduna þar sem þau hafi ætlað í útilegu í Svíþjóð. Var fjölskyldan farin á flakk þegar farangurinn skilaði sér á það heimilisfang sem fyrst hafi verið gefið upp, en deilt var um hvort fjölskyldan hafi tilkynnt félaginu um breytt heimilsfang til að senda farangurinn.

Flugfélagið viðurkenndi bótaskyldu og bauð staðlaðar 350 dali en hafnaði frekari bótaskyldu. Var vísað til þess að fjölskyldan hafi ekki innritað neinn farangur, aðeins sérfarangur – þrjá barnabílstóla þar sem tveir þeirra hafi verið saman í poka en í þeim þriðja hafi verið settur poki með fatnaði fjölskyldunnar.

Þar sem ferðast var með ung börn fylgdi frí farangursheimild fyrir barnabílstóla og kerrur. Benti flugfélagið á að skýrt kæmi fram í skilmálum að engu öðru mætti pakka með sérfarangri.

Bara kvittanir fyrir fatakaupum

Parið var beðið um kvittanir sem tengdust útlögðum kostnaði, til dæmis vegna leigu á barnabílstólum og kerru á meðan beðið hafi verið eftir þeim hlutum. Slíkum kvittunum hafi hins vegar ekki verið framvísað, einungis kvittunum fyrir fatakaupum.

Kærunefndin féllst á rök flugfélagsins að parið hafi brotið gegn skilmálum þegar fatnaði fjölskyldunnar hafi verið pakkað með bókuðum sérfarangri. Hins vegar liggi fyrir að fatnaður hafi engu að síður verið innritaður með sérfarangri flugfélagsins. Félagið sé því skaðabótaskylt vegna tafa á innrituðum farangri meðan hann væri í vörslum hans.

Líta verði til þess að meginhluti fatakaupa fjölskyldunnar hafi verið fram tveimur dögum eftir að félagið afhenti fjölskyldunni farangurinn á því heimilisfangi sem hafði verið skráð um týndan farangur við komuna til Stokkhólms.

„Fullyrðingar sóknaraðila þess efnis að hann hafi tilkynnt varnaraðila um breytt heimilisfang sitt í Svíþjóð þann 25. ágúst 2023 eru ekki studdar neinum gögnum og því ekki unnt að byggja á þeim við úrlausn málsins. Í ljósi framangreinds eru bætur til sóknaraðila hæfilega ákveðnar 1.110 SEK,“ segir í úrskurðinum, en upphæðin svarar til um 14 þúsund íslenskra króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×