Neytendur

Lands­bankinn lækkar vexti

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans. vísir/vilhelm

Landsbankinn kynnti í dag að bankinn muni lækka vexti á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum með fasta vexti. Munu fastir vextir til þriggja ára á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,3 prósentustig. Hið sama á við fasta vexti til fimm ára.

Breytingarnar taka gildi á morgun, 16. mars 2024 en fram kemur á vef bankans að vaxtabreytingar taki mið af stýrivöxtum Seðlabanka Íslands en einnig af vöxtum á markaði og öðrum fjármögnunarkjörum bankans.

Seðlabanki Íslands tilkynnir vaxtaákvörðun sína á miðvikudaginn í næstu viku. Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Nokkrar líkur séu einnig á að vöxtum verði haldið óbreyttum fram í maí. Stýrivextir eru nú 9,25 prósent og hefur Seðlabankinn haldið þeim óbreyttum síðustu þrjá vaxtaákvörðunardaga. Verðbólga hjaðnaði lítillega milli mánaða.

Boltinn hjá Seðlabankanum

Seðlabankastjóri hefur sagt nýgerða kjarasamninga góð tíðindi og hugsunin í samningunum væri góð. Nú væri boltinn hjá Seðlabankanum. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans kynnti skýrslu sína um stöðu efnahagslífsins á fundi í vikunni. Þar kom fram að peningastefnan með hækkandi vöxtum hefði náð að hægja mikið á hagkerfinu og hagvexti.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist vona að nýgerðir kjarasamningar og sú stefna sem þeir mörkuðu með hófsömum launahækkunum á næstu fjórum árum, verði innleg til minni verðbólgu og lækkunar vaxta.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×