Neytendur

Icelandair skýri betur fjár­hæð skróp­gjalds og fleira til

Atli Ísleifsson skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. Í úrskurði Neytendastofu segir að Icelandair þurfi meðal annars að tilgreina fjárhæð skrópsgjalds.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. Í úrskurði Neytendastofu segir að Icelandair þurfi meðal annars að tilgreina fjárhæð skrópsgjalds. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur beint þeim fyrirmælum til Icelandair að tilgreina í flutningsskilmálum sínum með hvaða hætti farþegar skuli senda félaginu tilkynningar um að þeir hyggist ekki nýta einhvern hluta flugmiða og fyrir hvaða tímamark.

Þá skuli félagið einnig tilgreina fjárhæð skrópgjalds eða hvernig það verði reiknað út og í hvaða tilvikum slíkt gjald sé lagt á farþega.

Þetta kemur fram í ákvörðun Neytendastofu sem tók málið til umfjöllunar eftir að ábendingar bárust vegna skilmála Icelandair um mætingarskyldu viðskiptavina (e. no-show). Var það niðurstaða stofnunarinnar að Icelandair hafi með því að birta ekki mikilvægar upplýsingar, sem almennt skipta neytendur máli, í flutningsskilmálum sínum brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Fram kemur að Neytendastofa hafi óskað eftir skýringum og athugasemdum Icelandair um skilmála og upplýsingagjöf félagsins. Í bréfum Neytendastofu hafi komið fram að ósamræmi hafi virst vera í skilmálum um heimild farþega til að nýta síðari fluglegg ef fyrri flugleggur er ekki nýttur, ásamt því að erfitt hafi verið að finna skilmálana á vefsíðu félagsins. Þá hafi ekki að sjá að skilmálarnir væru aðgengilegir á íslensku.

Neytendastofa er ein þeirra eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með viðskiptalífinu og lögum frá Alþingi sem sett eru vegna öryggis og réttinda neytenda. Vísir/Vilhelm

„Í svörum Icelandair kom fram að skilmálar félagsins gerðu ráð fyrir að farþegar geti nýtt sér síðari fluglegg þrátt fyrir að þeir ætli ekki að nota þann fyrri. Farþegi þurfi að tilkynna slíkt með nægjanlegum fyrirvara og, eftir atvikum, greiða fargjaldamismun. Undir rekstri málsins gerði Icelandair bæði breytingar á skilmálum sínum og framsetningu þeirra og eru þeir skilmálar sem um ræðir nú birtir á íslensku og handhægt að finna þá með einfaldri leit á vefsíðu félagsins.“

Vanti enn upp á upplýsingar

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir breytingu á umræddum skilmálum vanti enn upplýsingar sem almennt skipti neytendur máli.

Neytendastofa beindi því þeim fyrirmælum til Icelandair að tilgreina í flutningsskilmálum sínum með hvaða hætti farþegar skuli senda félaginu tilkynningar um að þeir hyggist ekki nýta einhvern hluta flugmiða og fyrir hvaða tímamark. Félagið skuli einnig tilgreina fjárhæð skrópgjalds eða hvernig það verði reiknað út og í hvaða tilvikum slíkt gjald sé lagt á farþega,“ segir á vef Neytendastofu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×