Viðskipti innlent

Böðvar Örn tekur við Eim­skip í Hollandi

Árni Sæberg skrifar
Böðvar Örn Kristinsson er á leiðinni til Hollands.
Böðvar Örn Kristinsson er á leiðinni til Hollands. Eimskip

Böðvar Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs hjá Eimskip, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eimskips í Hollandi, sem tilheyrir alþjóðasviði félagsins, og mun hefja störf þar í næstu viku.

Í tilkynningu um vistaskiptin segir að skrifstofa félagsins í Rotterdam sé ein stærsta starfstöð Eimskips utan Íslands, ein af lykilhöfnum í flutninganeti félagsins og sinni fjölbreyttri flutningaþjónustu tengdri siglingakerfi félagsins sem og fjölþættri flutningsmiðlun og tengdri þjónustu. 

Hjá Eimskip í Hollandi starfi rúmlega hundrað manns.

Böðvar Örn hafi starfað hjá Eimskip í tæp tuttugu ár og hafi því víðtæka þekkingu á félaginu sem og flutningageiranum og reynsla hans og þekking muni nýtast vel í að styrkja enn frekar starfsemina í Hollandi og styðja þannig við þjónustuframboð félagsins. 

Böðvar sé með B.Sc. í Viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og M.Sc. í flutningahagfræði og flutningaþjónustu frá Erasmus University í Rotterdam.

Böðvar verði stjórnendum á Íslandi innan handar næstu vikur þar til ráðið verður í starf framkvæmdastjóra innanlandssviðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×